Erlent

„Ég veit hvernig á að skera“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jamal Khashoggi.
Jamal Khashoggi. vísir/getty
Einn af morðingjum sádi-arabíska blaðamannsins Jamal Khashoggi heyrist segja „Ég veit hvernig á að skera“ á hljóðupptöku sem til er af morðinu.

Þetta sagði Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, í dag en tyrknesk yfirvöld hafa deilt hljóðupptökunni með yfirvöldum í Bandaríkjunum og Evrópu.

Khashoggi var myrtur á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl í byrjun október. Erdogan gagnrýndi í dag hversu missaga yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa verið um það hvernig Khashoggi var myrtur en hann var á ræðisskrifstofunni til að sækja skjöl vegna þess að hann var að fara að gifta sig.

„Bandaríkin, Þýskaland, Frakkland, Kanada, við höfum látið þau öll hlusta… Maðurinn segir mjög augljóslega „Ég veit hvernig á að skera.“ Þessi maður er hermaður. Þetta er allt á upptökunni,“ sagði Erdogan í dag en fór ekki nánar út í upptökuna.

Saksóknarinn í Istanbúl hefur sagt að Khashoggi hafi verið kæfður af morðingjunum sem svo skáru hann í sundur og losuðu sig við líkið. Líkamsleifar hans hafa ekki fundist.

Khashoggi sagði endurtekið við morðingjana að hann gæti ekki andað samkvæmt fréttum CNN í vikunni en heimildarmaður þeirra á að hafa lesið afritið af upptökunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×