Erlent

Vonast til þess að Alexa geti leyst morðmál

Andri Eysteinsson skrifar
Amazon Echo er til á fjölmörgum heimilum.
Amazon Echo er til á fjölmörgum heimilum. Getty/ Bloomberg
Dómstólar í Bandaríkjunum hafa óskað eftir heimild Amazon til að nálgast upptökur úr tæki af gerðinni Amazon Echo.

Lögregla telur að gögn úr tækinu geti varpað ljósi á morð sem framið var í New Hampshire snemma árs 2017. BBC greinir frá. Tækið fannst í húsi þar sem talið er að tvær konur hafi verið myrtar.

Lík kvennana fundust undir verönd hússins og báru líkin þess merki að konurnar hefðu verið myrtar og hnífur notaður til verksins. Karlmaður, sem hefur verið sakaður um morðin, neitar sök og mun fara fyrir dómstóla á næsta ári.

Hafa áður veitt upplýsingar

Auk hljóðupptökunnar hafa dómstólar óskað eftir gögnum frá Amazon um það hvaða símtæki voru tengd tækinu á þeim tíma sem morðin voru framin.

Á síðasta ári samþykkti Amazon að láta upplýsingar af hendi en eingöngu eftir að verjendur höfðu samþykkt að upplýsingarnar yrðu veittar dómara.

Amazon Echo virkjast með orðinu Alexa og er tækið oft kallað því nafni. Alexa tekur upp hljóðbrot og sendir til Amazon, eingöngu þó ef tækið er virkjað með nafninu Alexa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×