Skoðun

Sögur sem enda illa

Birkir Blær Ingólfsson skrifar
Ég fékk á dögunum Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir söguna STORMSKER - fólkið sem fangaði vindinn. Ég segi þetta ekki til að monta mig. Eða jú, kannski líka. En sérstaklega til að rifja upp að þegar ég skrifaði bókina lenti ég í dílemmu.

Fyrsta uppkastið að sögunni endaði á heimsendi. Þetta var sem sagt barnabók sem endaði á því að allir dóu. Ekki bara persónur sögunnar, heldur allir í heiminum. Sjálf jörðin tortímdist.

Þegar þetta fyrsta uppkast var tilbúið fékk ég vini og vandamenn til að lesa og kryfja þetta með mér. Og þau sögðu undantekningalaust – og kannski eðlilega: „Birkir, þú getur ekki skrifað barnabók sem endar á heimsendi. Þú bara getur það ekki. Börnin mín fá ekki að lesa þetta. Þú verður að finna nýjan endi.“

Ég ljóstra þessu ekki upp til að skemma fyrir ykkur endinn. Þetta er hvorki yfirlýsing um að bókin endi á heimsendi né að hún endi vel. Vegna þess að ég var á báðum áttum.

Börn glíma við stórfyrirtæki

Bókin fjallar nefnilega um börn sem eru að kljást við stórfyrirtæki. Og nú ætti ekki að koma neinum á óvart að börn eiga sjaldnast roð í stórfyrirtæki. Í bókinni standa þau að lokum frammi fyrir ógn sem er svo yfirþyrmandi að ég sá bara eiginlega enga raunsæja lausn.

Það er kannski ekki svo ólíkt heiminum eins og hann er í dag, sérstaklega eftir nýju skýrsluna frá Milli­ríkja­nefnd Sam­ein­uðu þjóð­anna um lofts­lags­breyt­ingar (IPCC). Í skýrslunni segir að við stefnum hraðbyri til glötunar, tólf ár séu til stefnu til að koma í veg fyrir óafturkræfan skaða á lífríki jarðarinnar. Og svo var settur verðmiði á björgunaraðgerðirnar: 2,5% af heimsframleiðslu árlega til ársins 2035. Tilfinningin sem leitar á mann er furðulegt máttleysi, því einhvern veginn líður manni eins og enginn ætli að breyta neinu.

Tökum sem dæmi loftslagsáætlun ríkisstjórnar Íslands. Hún er vissulega metnaðarfull stefnubreyting í umhverfismálum. Þar stendur: „Í fyrsta sinn verður umtalsverðum fjármunum varið af hálfu ríkisins til að styðja við aðgerðir í loftslagsmálum.“

Það er fagnaðarefni og sjálfur gleðst ég einlæglega yfir því að ríkisstjórnin ætli sér hluti í loftslagsmálum. Hins vegar segir Stefán Gíslason, sérfræðingur í umhverfisstjórnun, að miðað við þessa loftslagsáætlun þurfi að 47 falda framlög Íslands til að vera á pari við það sem fram kemur í skýrslu IPCC.

Árleg framlög ríkisstjórnarinnar til loftslagsmála þyrftu semsagt að hækka upp í 64 milljarða til þess að „redda málum og þegar ég segi redda málum er ég raun bara að tala um það að halda jörðinni við sem byggilegum stað fyrir fólk,“ svo aftur sé vitnað í Stefán.

Þrátt fyrir metnað íslenskra stjórnvalda, þá finnst mér þetta samt ískyggileg tilhugsun.



Sagna-lógík og allt sem endar vel

Með þessa vitnesku í farteskinu reyndi ég að smíða nýjan endi á söguna. Og þó lét ákveðin tilhugsun mig ekki í friði: Er kominn tími á nýjar sögur – sögur sem enda illa?

Sagnalistin hefur fylgt manninum frá upphafi. Og flestar sögur sem okkur þykir vænt um eru svipaðar. „Þetta er alltaf sama sagan í nýju dulargervi,“ skrifaði Joseph Campbell (í lauslegri þýðingu), en hann helgaði líf sitt því að rannsaka trúarbrögð og goðsögur mannkynsins. Sagan fjallar um persónur sem sæta þrengingum en finna svo lausn við þeim á síðustu stundu. Þetta er sagan sem við þráum að heyra. Við erum víruð fyrir fallegan endi.

Ég held því miður að þessu fylgi hliðarverkun, vegna þess að við skynjum heiminn í gegnum sögur. Og hliðarverkunin er sú - held ég - að við gerum innst inni ráð fyrir því að allt fari vel að lokum. Ég efast um að heimurinn virki svoleiðis. Þess vegna er kannski kominn tími til að skrifa sögur sem enda illa, sérstaklega fyrir börn sem ef til vill ræða það við foreldra sína. Þeim gæti nefnilega tekist að vekja okkur fullorðna fólkið til raunverulegrar umhugsunar um hvað það er hræðilegt ef allt fer á versta veg.



Við erum börnin

En svo þurfum við náttúrlega líka von. Sagan STORMSKER fjallar um börn sem trúa því að vindurinn sé lifandi tilfinningavera. Og með barnslega einlægni að vopni reyna þau að bjarga honum þegar stórfyrirtæki tekur upp á því að fanga vindinn í segl til þess að framleiða tíma, svo fullorðna fólkið hafi fleiri klukkustundir í hverjum sólarhring til að þreyta lífsgæðakapphlaupið. Hvernig framleiðir maður tíma með siglutrjám og seglum? Það stendur í bókinni.

Hvað um það, mér reyndist erfitt að finna rétta endinn: heimsendir eða ekki? Við þurfum, jú, að skilja að stundum endar sumt illa. En við þurfum helst líka að trúa því að börn geti boðið stórfyrirtækjum birginn og afstýrt skelfilegum voða. Vegna þess að við erum börnin.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×