Skoðun

Við erum öll tengd

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Fyrir tæpum 400 árum orti enska ljóðskáldið John Donne „Enginn maður er eyland“ (í þýðingu Halldórs Laxness) og vísaði til þess að við erum öll tengd. Mannkynið sé allt tengt á einn eða annan hátt og dauði eins manns gerir okkur minni því þá sé tekið af mannkyninu sem við tilheyrum.

Mér finnst gott að hafa þetta ljóð í huga nú þegar við rifjum upp hrunið sem mótaði okkur öll á einn eða annan hátt fyrir tíu árum. Sumir sluppu ágætlega frá hruninu, sérstaklega ef þeir voru búnir að hugsa fyrir því að koma eignum sínum í skjól. Margir misstu mikið og sumir aleiguna. Og jafnvel æru sína með. Aðrir misstu föður og bróður eins og kom fram í átakanlegu viðtali við unga konu sem var einungis unglingur þegar ósköpin dundu yfir.

Við vitum vel að peningar færa okkur ekki sanna hamingju og að þeir sem hafa mest milli handanna geta verið óhamingjusamari en við almúginn. En við vitum líka að fjárhagsáhyggjur eru ávísun á óhamingju. Að ná ekki endum saman og vita ekki hvort maður geti fætt fjölskylduna út mánuðinn eða borgað sjúkrakostnaðinn veldur sársauka sem nístir inn að hjarta.

Það væri óskandi að þingmenn hugsuðu eins og John Donne. Að þeir myndu nýta krafta sína í að auka úrræði fyrir þá sem lenda í krísum en ekki auka eymd í samfélaginu með því að hjakkast á að setja vímuefni í búðir. Að þeir myndu hjálpa þeim sem falla að standa aftur upp. Það mun á endanum skila sér í þjóðarbúið. Það að komast í snertingu við hamingjuna skilar sér í betra samfélagi, því eins og skáldið sagði, við erum öll tengd.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×