Erlent

Hættir í The Talk í skugga ásakana á hendur eiginmanninum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Tólf konur hafa stigið fram með ásakanir á hendur Les Moonves, fyrrverandi forstjóra CBS.
Tólf konur hafa stigið fram með ásakanir á hendur Les Moonves, fyrrverandi forstjóra CBS. Vísir/getty

Dagskrárgerðarkonan Julie Chen tilkynnti í dag með formlegum hætti að hún væri hætt í spjallþættinum The Talk.

Eiginmaður hennar, Les Moonves, lét af störfum sem forstjóri fjölmiðlarisans CBS eftir fréttir um kynferðislegt ofbeldi tóku að spyrjast út. Alls hafa tólf konur sakað Moonves um kynferðisbrot. Honum er gert að sök að hafa þvingað minnst eina konu til munnmaka og að hafa kysst og snert konur án samþykkis.

Ný sería af þáttunum The Talk hófust að nýju síðasta mánudag og vakti það athygli að Chen var fjarri góðu gamni.

Chen gerði grein fyrir ákvörðun sinni í myndskeiði sem birtist á CBS-sjónvarpsstöðinni í dag. Samstarfskonurnar í The Talk heyrðu tilfinningarík skilaboð hennar á sama tíma og áhorfendur þáttanna. Chen var gráti næst þegar hún þakkaði samstarfskonum sínum og áhorfendum fyrir samstarfið og áhorfið.

Í myndskeiðinu sagðist hún hafa ákveðið að hætta störfum við þættina til þess að geta varið meiri tíma með eiginmanni sínum og syni þeirra.

„Ég elska ykkur allar, og ég veit að þessi þáttur, og það systralag sem þættirnir standa fyrir, mun áfram vera í loftinu í fleiri fleiri fleiri ár. Þið konur eruð alveg með þetta og ég gæti ekki verið stoltari af því að geta kallað ykkur vinkonur mínar. Ég elska ykkur,“ sagði Chen.

Moonves er einn af valdamestu mönnum í Hollywood og fram að uppsögn hans hafði hann haldið um stjórnartaumana hjá CBS í um áratug.


Tengdar fréttir

Colbert spænir í eigin yfirmann

Stephen Colbert, stjórnandi The Late Show, hikaði ekki við að senda yfirmanni sjónvarpsstöðvar sinnar, Les­ Moonves yfirmanni CBS, tóninn í þætti sínum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×