Innlent

Erfitt geti reynst að koma með barnið til landsins

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Ísraelskt fyrirtæki sem hyggst bjóða Íslendingum upp á milligöngu um staðgöngumæðrun er ekki að fara í kringum íslensk lög á meðan eingöngu er boðið upp á starfsemina erlendis. Prófessor við lagadeild Háskóla Íslands segir foreldra geta lent í ákveðnum vandræðum við að koma með barnið hingað til lands.

Í fréttum okkar í gær sögðum við frá því að ísraelska staðgöngumæðrunarfyrirtækið Tammuz nordic hyggst bjóða upp á milligöngu um staðgöngumæðrun hér á landi.

Hrefna Friðriksdóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.Skjáskot/Stöð 2
En innan Íslands er hún ólögeg. Forsvarsmaður fyrirtækisins fullyrðir að þjónustan stangist ekki á við Íslenska löggjöf. Hrefna Friðriksdóttir, prófessor við lagadeild háskóla Íslands, segist í fljótu bragði ekki sjá neitt í íslenskum lögum sem banni þetta.

„Íslensku lögin fjalla fyrst og fremst um tæknifrjóvgun sem framkvæmd er hér á landi. Það er bannað að framkvæma frjóvgunina hér í samhenginu staðgöngumæðrun, það er að segja tæknifrjóvgun á konu sem hyggst ganga með barn fyrir einhvern annan,” segir hún. 

Flækjustigin mismunandi

Hún segir að fólk sem nýtir sér þjónustu staðgöngumæðra erlendis geti lent í erfiðleikum með að koma með barnið hingað til lands. Nokkur mál hafi komið upp með mismunandi flækjustigum og í kjölfarið hafi vaknað flóknar spurningar um réttarstöðu barnsins hér á landi.

„Flækjustigin eru líka mismunandi. Geta farið eftir því hverjir eiga í hlut, hverjir eru hinir væntanlegu foreldrar, hvert ferðast þau, hvaða reglur gilda í því landi til dæmis um staðgöngumæðrunina sem slíka og hvaða reglur gilda um ríkisborgararétt og þá líka sérstaklega hvaðan kynfrumurnar koma,” bendir hún á.

Aðspurð hvort það vanti skýrari reglur um staðgöngumæðrun hér á landi segir hún að óhætt sé að segja það.

„Það var hvati að samið var frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Þar var lagt upp með aðleyfa ákveðna tegund staðgöngumæðrunar. Jafnvel þó að menn væru ekki á því þá tel ég að það væri kostur að setja okkur skýrari reglur um hvað það er sem við bönnum eða viljum ekki, og líka tækjum afstöðu til hvernig við ætluðum að framfylgja slíku banni,” segir hún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×