Skoðun

Opið bréf til formanns VR

Starri Reynisson skrifar

Sæll Ragnar.

Ég er 23 ára gamall námsmaður á leigumarkaði, en sökum þess að ég vil ekki hætta mér út í námslánakerfið þá vinn ég samhliða námi sem verslunarmaður. Sem verslunarmaður tilheyri ég Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, þar sem þú ert formaður.

Ég vinn allan ársins hring, en eðli málsins samkvæmt vinn ég meira á sumrin en á veturna, þar sem á veturna þarf ég að hafa meiri tíma aflögu til þess að sinna náminu. Það er fjöldinn allur af fólki í svipaðri stöðu og ég, margir sem vinna allt árið en sumir sem hafa tök á því að vinna bara á sumrin. Mörg störfum við sem kvöld-, helgar- eða afleysingastarfsfólk í verslunum, en öll þurfum við að nýta þau frí sem við fáum frá skóla til þess að vinna og leggja fyrir. Fyrir fólk í þessari stöðu geta svokallaðir rauðir dagar, eða stórhátíðardagar, skipt gífurlegu máli. Það hefur a.m.k. töluverð áhrif á minn launaseðil þegar ég næ vakt á stórhátiðarkaupi, en það er almennt slegist um þær vaktir á mínum vinnustað.

Nú skömmu fyrir verslunarmannahelgi gafst þú, sem formaður VR, út yfirlýsingu þess efnis að þú vildir að frídagur verslunarmanna stæði undir nafni og allar verslanir væru lokaðar á þeim degi, sem og öðrum stórhátíðardögum.

Ég finn ekki neina þörf hjá mér til þess að vera í fríi á frídegi verslunarmanna, 1.maí eða aðfangadag. Það sem ég hef hins vegar þörf fyrir er stórhátíðarkaupið sem ég er á þá daga, það gerir mér kleift að leggja fyrir ef það skyldi harðna í ári, og stundum hjálpar það mér einfaldlega að ná endum saman í lok mánaðar.

Hvers vegna vilt þú, aðili sem á að gæta minna hagsmuna, taka af mér þann möguleika að vinna á stórhátíðardögum?

Eftir að hafa hlustað á þinn málflutning síðustu vikur kemst ég ekki hjá því að spyrja hvort þú sért í raun og veru að berjast fyrir hagsmunum félagsmanna VR eða hvort þú sért einfaldlega að slengja fram hástemdum yfirlýsingum sem hljóma vel í fjölmiðlum og láta þig líta vel út. Er þér treystandi til þess að leiða kjarabaráttu ef þú getur ekki horft til hagsmuna allra þinna umbjóðenda? Ert þú formaður allra félagsmanna, eða bara sumra?

Þú ert í það minnsta ekki minn formaður, ekki síst vegna þess að það er engan veginn mér í hag að mér sé bannað að vinna á frídegi verslunarmanna.

Virðingarfyllst,

Starri Reynisson

Félagsmaður í VR


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×