Skoðun

Merkið Ísland dregið niður í svaðið

Ole Anton Bieltvedt skrifar
Ísland, nafn landsins okkar, ímynd þess og orðspor, er meðal þess dýrmætasta, sem við eigum.

Á síðustu árum og áratugum hefur myndast jákvæð mynd af Íslandi og Íslendingum á alþjóðavettvangi, þökk sé gullfallegri náttúru landsins, gestrisni og elskulegri framkomu landsmanna, sem milljónir ferðamanna hafa upplifað og notið, og auk þess hefur t.a.m. frækileg frammistaða fótboltalandsliðsins okkar gert garðinn – Ísland – frægan.

Rithöfundar og ýmsir aðrir hugvits og hæfileikamenn, líka á sviði viðskipta, fiskveiða og hátækni, haf bætt um betur og styrkt þessa jákvæðu ímynd Íslands.

Stundum er sagt, að það eina, sem menn í raun eigi, sé orðspor þeirra og ímynd, mannorð og æra. Í Asíu er talað um, hvort menn haldi andlitinu. Sá sem heldur andlitinu, stendur vel og sterkt, á hverju, sem gengur. Auðvitað gildir þetta líka um lönd og þjóðir.

Við teljum okkur menningarþjóð. Framarlega í flokki í mannréttindum, jafnrétti, lýðræði, samúð og stuðningi við þá, sem minna mega sín, samhjálp og mannúðar- og siðmenningarmálum almennt. Þetta má nokkuð til sanns vegar færa.

Á einu sviði gildir þetta þó ekki: Dýra-, náttúru- og umhverfisvernd. Hér er enn margt, eins og það var á síðustu öld. Á lágu plani. Ný og góð lög hafa reyndar verið sett, en lítið eða ekkert er eftir þeim farið.

Mahatma Gandhi sagði: „Það má meta framfarir og siðferðislegan þroska þjóðar af því, hvernig hún umgengst dýrin sín“.

Í byrjun síðustu aldar munu hafa verið 3-5 milljónir rjúpna í landinu. Vorið 2016 var búið að drepa þær niður í 100 þúsund.

1980 voru selir við landið 32 þúsund. Nú eru þeir komnir í 7 þúsund.

Skv. skýrslu helztu vist- og líffræðinga landins, hefur lífið verið murkað úr villtum fuglum landsins í slíkum mæli, að 17 tegundir eru í útrýmingarhættu. Þar á meðal svartbakur, máfar, lundi, hrafn, kjói, grágæs, langvía og álka, auk rjúpu.

Pólarrefurinn, sem var kominn hingað löngu á undan okkur, er ofsóttur í slíkum mæli, að kalla mætti helför, án þess þó, að vitað sé til nokkurs skaða af refnum í marga áratugi. Er margur 4ra vikna yrðlingurinn barinn til bana með steini.

Hreindýrakýr eru miskunnarlaust drepnar frá 8-10 vikna kálfum þeirra, þó að þeir þurfi á móðurmjólk og móðurvernd að halda í minnst 6 mánuði.

Ef siðmenning okkar yrði dæmd út frá gildum Gandhi, fengjum við ekki háa einkunn. Fyrrnefnd mál eru þó meira innanlandsmál, sem lítið koma fram á alþjóðavettvangi.

Öðru máli gegnir um hvalveiðarnar. Einkum þó langreyðaveiðar, sem engin önnur þjóð stundar. Þær eru alþjóðlegt mál, enda langreyðurin flökkudýr, sem fæðist við Vestur Afríku og flakkar um heimshöfin. Hér stendur hún aðeins við í nokkrar vikur. Að kalla hana „íslenzka auðlind“ er út í hött.

Skv. IUCN er langreyðurin talin í útrýmingarhættu, og er hún friðuð. Um 190 þjóðir eru aðilar að CITES samkomulaginu, sem bannar verzlun með og flutning á hvalaafurðum í þeirra lögsögu.

Afurðir hvala eru því nánast óseljanlegar.

Til viðbótar koma svo villimannlegar drápsaðferðir og heiftarlegt dauðastríð dýranna. Skutulsbyssur og búnaður eru minnst hálfrar aldar gamlar.

Af 50 langreyðum, sem vorum veiddar 2014, þurftu 8 að heyja lífsbaráttu í allt að 15 mínútur, þar sem stálkló skutuls reif og tætti innyfli, líffæri og hold dýranna, í heiftarlegum átökum og kvalræði, þar til yfir lauk.

Þetta veit og þessu hafnar alþjóðasamfélagið. Ágangur og misþyrmingar á náttúru og lífríki er kominn í sjónarhorn margra. Unga fólkið krefst friðunar og verndunar lífríkisins.

Síðustu vikurnar, eftir að Hvalur hf hóf langreyðaveiðar að nýju, hefur varla liðið sá dagur, að alþjóðapressan hafi ekki fjallað um þessar veiðar með hneykslun og harmi. Ekki bætti það málið, þegar blendingur - móðirin var steypireyður - var veiddur, en steypireyðurin er alfriðuð, líka hér.

Menn vita, að Íslendingar eru ein ríkasta þjóð heims, og, að þörfin fyrir þessar veiðar er lítil eða engin. Margir eru því fullir vanþóknunar á okkur, og, þegar við viljum afsaka okkur með því, að þetta sé bara „einn maður“, kemur spurningin: „Af hverju láta valdamenn og þjónin þetta viðgangast?“.

Ég spyr: Er einhver glóra í því, að við látum „einn mann“ draga ímynd og orðspor landsins – merkið okkar allra; Ísland - niður í svaðið?




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×