Erlent

Nýtt lyf við legslímuflakki samþykkt í Bandaríkjunum

Jónas Torfason og Ólöf Skaftadóttir skrifar
Mikill sársauki fylgir sjúkdómnum, einkum á blæðingum.
Mikill sársauki fylgir sjúkdómnum, einkum á blæðingum. Vísir/Getty
Nýtt lyf til meðferðar á sársauka vegna legslímu­flakks, eða endómetríósu, var nýlega samþykkt í Bandaríkjunum. Ester Ýr Jónsdóttir, varaformaður Samtaka um endómetríósu, segist fagna nýjum meðferðarúrræðum.

Sjúkdómurinn lýsir sér þannig að frumur úr innra lagi legsins finnast á öðrum stöðum í kviðarholinu sem veldur sársauka, blöðru- og þarmavandamálum auk ófrjósemi. Leg­slímuflakk er lítið rannsakað og lækning ekki þekkt. Oft er sársaukinn mikill þegar konur eru á blæðingum eða stunda kynlíf.

Hingað til hefur sársauki og ófrjósemi verið meðhöndluð með lyfja- og hormónameðferð. Ester segir misjafnt hvort slíkt henti. „Það er ofsalega misjafnt hvort meðferðin hefur jákvæð áhrif á einkennin. Það er alls ekki gefið. Það er ofboðsleg vanþekking á sjúkdómnum og margar konur fá ekki meðhöndlun við hæfi.“ Hún segir dæmi þess að konur með endómetríósu verði fyrir fordómum af hálfu heilbrigðisstarfsfólks. „Ég hugsa að stór hluti þess sé að þetta er kvensjúkdómur; konur eru taldar móðursjúkar eða ekki tekið mark á þeim.“

Lyfið heitir Orilissa. Á rann­sóknar­stigi náðist nokkur árangur með lyfinu. Eitthvað var um aukaverkanir, höfuðverki og svefn­erfiðleika. „Það er mikilvægt fyrir konur með endómetríósu að komast til læknis sem hefur sérþekkingu á sjúkdómnum. Við hjá samtökunum bendum konum á að hafa samband við okkur í gegnum heimasíðuna okkar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×