Erlent

Vilja gera Katar að eyríki með risaskurði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Yfirvöld í Katar og Sádí-Arabíu hafa deilt undanfarna mánuði.
Yfirvöld í Katar og Sádí-Arabíu hafa deilt undanfarna mánuði. Vísir/Getty
Yfirvöld í Sádí-Arabíu stefna á að grafa skurð á landamærum ríkisins við Katar og breyta þar með Katar með í eyríki. Yfirvöld ríkjanna tveggja hafa átt í harðvítugum deilum sín á milli að undanförnu. Bloomberg greinir frá.

Katar er staðsett á Katar-skaga og einu landamæri ríkisins liggja að Sádí-Arabíu og eru þau um 60 kílómetra löng. Tilkynnt var um áætlanir Sádi-Araba í apríl en í gær leið frestur sem fimm alþjóðleg fyrirtæki höfðu til þess að skila tilboðum í framkvæmdina.

Stefnt er að því að eitt fyrirtæki verði fyrir valinu innan 90 daga og að framkvæmdum ljúki innan eins árs. Fjölmiðlar hafa greint frá því að skurðurinn eigi að vera 200 metra langur, svo að skip geti auðveldlega ferðast um hann. Kostnaður við framkvæmdina er gríðarlegur að því fjölmiðlar í Sádí-Arabíu herma, 750 milljón dollarar, eða um 80 milljarðar króna.

Skurðurinn myndi sem fyrr segir einangra Katar enn frekar frá öðrum ríkjum á Arabíuskaga en Sádi-Arabía, Egyptaland, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Barein hafa beitt Katar stjórnmála- og viðskiptahöftum síðan á síðasta ári.

Aðgerðirnar sögðu ríkin vera á grundvelli þess að yfirvöld í Katar styðji við „ýmis hryðjuverkasamtök og hópa sem vinni gegn hagsmunum Arabíuskagans,“ en þar er átt við hópa líkt og Bræðralag múslíma, Al-Kaída, Íslamska ríkið og hópa sem studdir eru af Írönum.


Tengdar fréttir

Katörum sett ströng skilyrði

Fjögur Arabaríki hafa sent Katörum strangar kröfur, eigi þau að aflétta þvingunum gegn katarska ríkinu. Ríkin sem um ræðir eru Sádi-Arabía, Egyptaland, Bahrein og Sameinuðu arabísku furstadæmin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×