Erlent

Kjarnorkuvopn gegn loforði um enga innrás

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-un og Moon Jae-in.
Kim Jong-un og Moon Jae-in. Vísir/AFP
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, sagði Moon Jea-in, forseta Suður-Kóreu, að hann væri tilbúinn til að láta kjarnorkuvopn sín frá sér, gegn friðarsamkomulagi og því að Bandaríkin lofuðu að ráðast aldrei á Norður-Kóreu. Á fundi þeirra á föstudaginn hét Kim því að loka kjarnorkuvopnatilraunastað Norður-Kóreu í næsta mánuði.

Efasemdir eru uppi um hvort að Norður-Kórea muni í raun láta af kjarnorkuvopnum sínum og tók John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump, fréttunum af varkárni.

„Við höfum heyrt þetta áður,“ sagði Bolton í sjónvarpsviðtali í dag. „Við viljum sjá sannanir um að þeim sé alvara og þetta sé ekki bara áróður.“



Í samtali við AP fréttaveituna segja embættismenn frá Suður-Kóreu, sem hafa komið að undirbúningi fundar Kim og Trump, að Kim virðist tilbúinn til að láta kjarnorkuvopn sín af hendi. Þá lýsti hann yfir jákvæðni sinni gagnvart fundinum með Trump.



Á fundi leiðtoganna á föstudaginn sagði Kim einnig að yfirvöld hans ætluð að samræma tíma þeirra aftur við Suður-Kóreu. Árið 2015 var sérstakt tímabelti búið til fyrir einræðisríkið sem er 30 mínútum á eftir Suður-Kóreu og Japan.

Nefndi versta mögulega dæmið

Í áðurnefndu viðtali í dag sagði Bolton, sem hefur lengi verið harðorður gagnvart Norður-Kóreu, að eftirlitsaðilar þyrftu að fá aðgang að ríkinu áður en látið yrði af viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum gagnvart því.

Í því samhengi vísaði hann til Líbíu á árunum 2003 og 2004. Þegar Muammar Gaddafi, þáverandi einræðisherra landsins, gaf frá sér kjarnorkuvopn sín. Einhverjir hafa nú bent á að þar hefði þjóðaröryggisráðgjafinn notað versta dæmið sem hann gat, þar sem Bandaríkin komu að því að steypa Gaddafi úr stóli mörgum árum seinna.

Hann var síðan skotinn til bana af uppreisnarmönnum.

Bolton sagði einnig að kjarnorkuvopn yrðu ekki það eina sem yrði rætt á fundi Trump og Kim. Nauðsynlegt væri að ræða einnig um efnavopn einræðisríkisins, mannrán ríkisins og eldflaugaáætlun þess, svo eitthvað sé nefnt.

 


Tengdar fréttir

Vorið breiðist út um Kóreuskagann

Kim Jong-un gekk yfir landamærin til grannríkisins Suður-Kóreu í nótt. Með því varð hann fyrsti leiðtogi Norður-Kóreu sem stígur fæti á suður-kóreska grundu síðan árið 1953, þegar ríkin tvö undirrituðu vopnahlé í Kóreustríðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×