Innlent

Innbrot og þjófnaður í Skeifunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Skeifunni.
Frá Skeifunni. Stöð 2
Ölvuð kona var handtekin í Skeifunni á áttunda tímanum í gærkvöldi. Að sögn lögreglu er hún grunuð um þjófnað eða hnupl og þá á hún jafnframt að hafa valdið einhverju tjóni á svæðinu. Hverju hún stal eða hvað hún skemmdi fylgir þó ekki sögunni. Þegar lögreglumenn höfðu afskipti af henni vildi konan hvorki gefa upp nafn sitt né kennitölu. Ákváðu lögreglumenn því að flytja hana í fangaklefa, þar sem hún hefur mátt sofa úr sér vímuna. Ætla má að hún verði yfirheyrð vegna málsins þegar líður á daginn.

Skammt undan, í Faxafeni, var svo brotist inn þegar klukkan var að ganga 5 í morgun. Þar fór innbrotsþjófur, hugsanlega í slagtogi við aðra, inn í verslun og lét greipar sópa. Nákvæmlega hverju var stolið er ekki vitað á þessari stundu en tjónið verður metið síðar í dag.

Þá ók ölvaður ökumaður á vegrið við gatnamót Hafravatnsvegar og Suðurlandsvegar um klukkan 20:30 í gærkvöldi. Hann keyrði af vettvangi en lögreglumönnum tókst að hafa hendur í hári hans skömmu síður. Þá kom á daginn að maðurinn hafði einnig valdið skemmdum á heimili sínu, lögreglan gefur þó ekki upp hvar það er til húsa. Sem fyrr segir er maðurinn grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna, áfengis eða lyfja, og hefur hann mátt dúsa í fangaklefa í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×