Skoðun

Aftur í vagninn!

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Þegar ég var að alast upp í Vogahverfinu í Reykjavík á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar tókum við flestöll strætó til að fara á milli borgarhluta. Við sátum hvert með öðru, krakkar og forstjórar, fiskverkafólk og erindrekar, skósmiðir og fulltrúar, húsmæður og tannlæknar – og borgarfulltrúar: Kristján Benediktsson sá góði fulltrúi Framsóknarflokksins var alltaf í Vogavagninum á morgnana.

Í strætó var maður innan um fólk, maður sá fólk, fékk tilfinningu fyrir öðru fólki og sjálfum sér í samhengi við það. Reglulega vorum við beðin af vagnstjóra að gjörasvovelog færa okkur aftar í vagninn, svo að fleiri kæmust fyrir. Það efldi félagsandann og tillitssemina og tilfinninguna fyrir því að búa í borg með öðru fólki.

Frá þessum árum hefur höfuðborgarsvæðið færst fjær því að standa undir nafni sem borg, hvað varðar þjónustu og mannlíf í hverfunum, sem eru mörg bara samsafn af svefnherbergjum. Almenningssamgöngur sem hafa um árabil mátt þoka fyrir sífellt aukinni notkun einkabíla, en eins og kunnugt er líta margir Íslendingar á bíla sem nokkurs konar úlpu, skrifstofu á hjólum eða vélknúinn hest sem rati sjálfur meðan bílstjórinn er í símanum, og telja það til marks um meiriháttar ósigur í lífinu að þurfa að deila rými með öðru fólki meðan farið er milli bæjarhluta.

Nú stendur til að gera stórátak í almenningssamgöngum með svokallaðri Borgarlínu, sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa sameinast um að byggja upp með atbeina ríkisins. Takist þetta átak er þess jafnvel að vænta að almenningssamgöngur komist í svipað horf og var á uppvaxtarárum mínum. Það er verðugt markmið. Samt virðast sumir frambjóðendur ætla að bjóða fram undir kjörorðinu: Enginn í strætó!

Við þurfum öll að færa okkur aftar í vagninn ef við eigum að komast hér öll fyrir. Það er óskiljanlegt að á því herrans ári 2018, sé deilt um það hvort raunhæfar og áreiðanlegar almenningssamgöngur – eins og tíðkast um allan heim – skuli vera hluti grunnþjónustu sveitarfélaganna.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×