Skógar brenna í nokkrum ríkjum á vesturströnd Bandaríkjanna, þar á meðal í Washington- og Oregon-ríkjum. Reykinn hefur lagt yfir borgir allt frá Denver til Seattle, að sögn Washington Post. Fyrr í sumar loguðu eldar í Bresku Kólumbíu í Kanada og hefur reykinn lagt suður yfir landamærin.
Veðuraðstæður ollu því svo að aska byrjaði að falla af himnum ofan í Seattle í Washington og Portland í Oregon í gær. Slíkt hefur ekki gerst frá því að eldgos varð í St. Helens í suðvesturhluta Washington-ríkis árið 1980. Nú er ástæðan hins vegar leifar brennandi gróðurs sem vindurinn ber með sér.
Að sögn Seattle Times ætti öskufallinu að ljúka á morgun þegar vindur snýst þar. Þá gæti úrkoma hreinsað loftið.
WA awoke to ash-covered cars and smokey skies. Air quality is unhealthy in many areas. Check health info & forecast: https://t.co/Bo1FSbcqln pic.twitter.com/YsSaoEWJuJ
— WA Dept of Ecology (@EcologyWA) September 5, 2017
Reykurinn frá skógareldunum hefur leitt til þess að þjóðvegi var lokað í Oregon, atburðum utandyra hefur verið aflýst og heilsuviðvaranir hafa verið gefnir út til íbúa í Seattle.
Jay Inslee, ríkisstjóri Washington, lýsti yfir neyðarástandi á laugardag í öllu ríkinu. Hermenn hafa verið sendir til að berjast við eldana í Oregon. Inslee boðið hvatt Donald Trump, forseta Bandaríkjanna sem afneitar vísindalegri þekkingu á loftslagsbreytingum, að heimsækja Washington til að þefa af reyknum og sjá öskuna.
„Fólk er að tala um fellibylji. Við sjáum loftslagsbreytingar í skógunum okkar, það er kominn tími til að horfast í augu við raunverulega vandamálið,“ sagði Inslee en skammt er síðan fellibylurinn Harvey skall á Texas-ríki og nú stefnir Irma á Flórída. Talað hefur verið um að hnattræn hlýnun hafi veitt fellibyljunum aukinn styrk.
Almost all of WA is awash in wildfire smoke today. https://t.co/VTMXMwAHaO pic.twitter.com/pKVjhmmnwu
— WA Dept of Ecology (@EcologyWA) September 4, 2017

Veðurfræðingurinn Dana Felton segir við Seattle Times að þetta hafi verið ár öfga í Seattle.
„Við höfum aldrei áður upplifað fimm daga í röð með hæsta hita yfir 29°C í septembermánuði í þau 120 ár sem mælingar hafa verið gerðar. Við höfum fengið okkar skerf af öfgum frá úrkomusömustu til þurrustu og heitustu. Við höfum brotið öll met,“ segir hann.