Erlent

Yfirborð sjávar hækkar hraðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Strandbyggðir eins og gríska þorpið Derveni eru í hættu vegna hækkandi yfirborðs sjávar í hlýnandi heimi.
Strandbyggðir eins og gríska þorpið Derveni eru í hættu vegna hækkandi yfirborðs sjávar í hlýnandi heimi. Vísir/EPA
Bráðnun íss á Grænlandi er aðalorsök þess að yfirborð sjávar hækkar nú hraðar en fyrir rúmum tveimur áratugum. Ný rannsókn sýnir að fjórðungur árlegrar hækkunar sjávarmáls kemur frá bráðnandi Grænlandsjökli.

Yfirborð sjávar fer hækkandi vegna hnattrænnar hlýnunar sem nú á sér stað af völdum manna á jörðinni. Framan af hækkaði yfirborðið fyrst og fremst vegna þess að sjórinn þandist út þegar hann hlýnaði. Nú er það hins vegar bráðnun landíss sem leggur mest af mörkum til yfirborðshækkunarinnar.

Rannsókn vísindamanna í Kína, Bandaríkjunum og Ástralíu sem þeir birta í Nature Climate Change sýnir að árlega hækkunin jókst úr 2,2 millímetrum árið 1993 í 3,3 millímetra árið 2014. Árið 1993 stóð bráðnun Grænlandsjökuls fyrir um 5% hækkunarinnar en eins og áður segir nemur hún nú um 25% árlegrar hækkunar sjávarmáls.

Hækkunin verði meiri en nefnd SÞ spáir

Washington Post segir í umfjöllun sinni um rannsóknina en hún sé sú þriðja sem komið hefur út á innan við ári sem sýnir að hækkun yfirborðs sjávar sé að auka hraðann.

Benda vísindamennirnir á að eftir því sem Grænlandsjökul, Suðurskautslandið og aðrir jöklar bráðna meira því meira geti yfirborð sjávar hækkað, enn meira en loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) hefur gert ráð fyrir.

Mat IPCC frá 2013 hefur verið gagnrýnt undanfarin ár fyrir að vera of varfærið. Margt bendi til þess að yfirborðshækkun sjávar verði töluvert meiri á þessari öld með tilheyrandi erfiðleikum fyrir strandbyggðir manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×