Erlent

Merkel setur loftslagsbreytingar á oddinn fyrir fund G20

Búast má við áframhaldandi togstreitu á milli Angelu Merkel og Donald Trump þegar rætt verður um loftslagsmál á G20-fundinum í næstu viku.
Búast má við áframhaldandi togstreitu á milli Angelu Merkel og Donald Trump þegar rætt verður um loftslagsmál á G20-fundinum í næstu viku. VÍSIR/EPA
Baráttan gegn loftslagsbreytingum á jörðinni verður eitt helsta viðfangsefni G20-leiðtogafundarins í næstu viku, að sögn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

„Við verðum að takast á við þessa tilvistarlegu áskorun og við getum ekki beðið þangað til hver einasti maður á jörðinni hefur látið sannfærast af vísindalegum sönnunum,“ sagði Merkel og lagði áhersla á að Evrópulönd yrðu að taka forystuna í loftslagsmálum eftir að Bandaríkin tilkynntu að þeir ætluðu að segja skilið við Parísarsamkomulagið.

Kanslarinn ætlar að reyna að beina umræðum á fundi leiðtoga tuttugu öflugustu iðnríkja heims að loftslagsmálum en segist búast við andmælum frá fulltrúum Bandaríkjanna, að því er kemur fram í frétt The Guardian.

Þvert á vísindalega þekkingu á orsökum hnattrænnar hlýnunar hafa bandarískir ráðamenn ítrekað vefengt að menn beri ábyrgð á loftslagsbreytingum með losun sinni á gróðurhúsalofttegundum. Þannig hafa forstjóri Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna og orkumálaráðherrann sagt að þeir trúi því ekki að koltvísýringur sé helsta orsök hnattrænnar hlýnunar. Trump hefur sjálfur sagt að loftslagsbreytingar séu kínverskt „gabb“.

Einangrunar- og verndarstefna ekki leiðin

Það er ekki aðeins í loftslagsmálum þar sem gjá hefur myndast á milli bandarískra stjórnvalda og evrópskra. Undir forystu Donalds Trump forseta hafa Bandaríkin dregið sinn í skel sína á alþjóðavettvangi og talað gegn frjálsum alþjóðlegum viðskiptum.

„Hver sá sem telur að hægt sé að leysa vandamál heimsins með einangrunar- og verndarstefnu veður í villu og svima,“ segir Merkel.

G-20-fundurinn fer fram í þýsku borginni Hamborg dagana 7. og 8. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×