Erlent

Loftslagslögsókn barna gegn Trump lifir enn

Kjartan Kjartansson skrifar
Börnin halda því fram að alríkisstjórnin hafi brotið rétt þeirra með að stuðla að framleiðslu jarðefniseldsneytis eins og kola.
Börnin halda því fram að alríkisstjórnin hafi brotið rétt þeirra með að stuðla að framleiðslu jarðefniseldsneytis eins og kola. Vísir/EPA
Alríkisdómari í Bandaríkjunum hefur hafnað kröfu ríkisstjórnar Donalds Trump að vísa hóplögsókn barna vegna loftslagsmála frá dómi. Börnin reyna nú að stefna bandarískum stjórnvöldum vegna aðgerðarleysis þeirra í baráttu gegn loftslagsbreytingum.

Málið var upphaflega höfðað gegn ríkisstjórn Baracks Obama. Samkvæmt frétt Washington Post halda börnin, sem eru á aldrinum 9 til 21 árs, því fram að bandaríska alríkissjórnin hafi brotið á þeim stjórnarskrárvarinn rétt með því að stuðla að framleiðslu jarðefnaeldsneytis og losun losun gróðurhúsalofttegunda. Stjórninni beri skylda til að vernda loftslags jarðar í þágu almannaheilla.

Gæti haft mikið fordæmisgildi

Umdæmisdómari neitaði kröfu alríksstjórnarinnar og hagsmunaaðila að vísa málinu frá í nóvember. Stjórnvöld áfrýjuðu þeim úrskurði til áfrýjunardómstóls sem vísaði frávísunarkröfunni frá í síðustu viku. Það er nú í höndum upphaflega umdæmisdómarans hvort að málið fer fyrir dóm.

„Ólíkt Parísarsamkomulaginu getur ríkisstjórn Trump ekki dregið sig frá þessari lögsókn,“ segir Julia Olson, lögmaður barnanna í yfirlýsingu.

Hugsanlegt er þó að alríkisstjórnin reyni enn að stöðva málsóknina með því að biðla til æðra dómsvalds um að grípa inn í. Þess er þó sárasjaldan krafist og enn sjaldnar fallist á slíkar kröfur.

Fordæmisgildi málsins er talið geta orðið gríðarlegt ef dómstólar viðurkenna rétt borgarnna á heilbrigðu loftslagsi. Hafi stefnendurnir sigur myndu nýjar dyr opnast umhverfisverndarsinnum fyrir dómstólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×