Erlent

Bandaríkin hætta aðild að Parísarsamkomulaginu

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Ef Trump ákveður að draga Bandaríkin úr sáttmálanum verða Bandaríkin þriðja landið til að samþykkja ekki sáttmálann.
Ef Trump ákveður að draga Bandaríkin úr sáttmálanum verða Bandaríkin þriðja landið til að samþykkja ekki sáttmálann. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti á sjöunda tímanum á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í kvöld að Bandaríkin hygðust draga sig út úr Parísarsamkomulaginu.

Hann sagði ákvörðunina tekna til þess að „vernda Bandaríkin“ en hann tók þó fram að Bandaríkin væru opin fyrir þátttöku í endurskoðuðu samkomulagi, eða þá alveg nýjum sáttmála, þar sem hagsmuna Bandaríkjanna væri frekar gætt.

Trump hefur, eins og frægt er orðið, gagnrýnt samkomulagið ítrekað og meðal annars fleygt því fram að loftslagsbreytingar af manna völdum og hlýnun jarðar séu gabb sem fundið var upp af Kínverjum til að hafa áhrif á efnahag Bandaríkjanna.

Bandaríkin eru nú þriðja landið til að samþykkja ekki sáttmálann. Hin tvö eru Sýrland og Nicaragua. Eins og staðan er í dag þá eru Bandaríkin í öðru sæti yfir þau lönd sem menga hvað mest í heiminum. Fræðimenn reikna það út að ef Bandaríkin draga sig út úr samningnum mun kolefnismengun aukast verulega og hitastig gæti hækkað um allt að 0,3 gráður í lok aldarinnar. Borgarstjórar úr röðum Demókrata halda þó í vonina og segja að þeir munu taka málin í sínar hendur og vinna að umhverfisvernd í takt við sáttmálann.

Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×