Erlent

Fullyrða að Trump muni draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Vísir/AFP
Bandarískir fjölmiðlar segja að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi ákveðið að draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu. Vefurinn Axios greinir frá þessu og vísar í tvo ólíka heimildarmenn.

Trump neitaði að lýsa yfir stuðningi við Parísarsamkomulagið á fundi leiðtoga G7-ríkjanna á Sikiley í síðustu viku og sagðist þurfa meiri tíma til umhugsunar. Sagði hann í tísti að hann hugðist tilkynna um ákvörðun sína í þessari viku.

Um tvö hundruð ríki náðu samkomulagi á fundi sínum í París 2015 sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt samkomulaginu skuldbindur Bandaríkin sig til að draga úr losun um 26 til 28 prósent fram til ársins 2025, miðað við losunina 2005. Markmið samkomulagsins er að tryggja að hlýnun jarðar haldist vel fyrir innan tvær gráður.

Axios segir að Scott Pruitt, yfirmaður Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna, vinni nú að útfærslu úrsagnarinnar.

Í frétt Reuters segir að 22 öldungadeildarþingmenn Repúblikana, meðal annars leiðtoginn Mitch McConnell, hafi þrýst mjög á að Bandaríkin dragi sig úr samkomulaginu.

Uppfært 13:30:

Trump hefur greint frá því á Twitter að hann muni taka ákvörðun um Parísarsamkomulagið á næstu dögum. Lýkur hann færslunni á árunum „Make America Great Again“, sem var slagorð hans í kosningabaráttunni á síðasta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×