Fótbolti

48 liða HM samþykkt hjá FIFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur komið því í gegn að liðum í úrslitakeppni HM verði fjölgað frá og með HM 2026.
Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur komið því í gegn að liðum í úrslitakeppni HM verði fjölgað frá og með HM 2026. Vísir/Getty
Framkvæmdaráð FIFA hefur samþykkt að stækka heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu frá og með 2026 í 48 lið. Tillagan var samþykkt einróma á fundinum í dag.

Þátttökuþjóðum verður þar með fjölgað um sextán en líklegt er að Evrópa fái aðeins þrjú af aukasætunum sem í boði eru.

Útfærslan á nýja fyrirkomulaginu hefur þó ekki verið tilkynnt formlega en það verður gert síðar í dag.





Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur talað fyrir stækkun heimsmeistarakeppninnar síðan hann var í framboði til embættis forseta sambandsins.

Sjá einnig: Verður jafnteflum útrýmt á HM?

Ekki meira álag á leikmenn

Þetta þýðir að heildarfjöldi leikja á HM 2026 verður 80 í stað 64 eins og í síðustu keppnum. Lið sem fara alla leið í úrslitaleikinn munu þó spila sjö leiki eins og áður.

Þá er einnig ljóst að keppnin mun klárast á 32 dögum sem þýðir að álag á leikmenn mun ekki aukast frá gamla fyrirkomulaginu.

Hvert lið mun spila tvo leiki í riðlakeppninni en tvö lið af þremur komast áfram í 32-liða úrslit keppninnar. Þá tekur við útsláttarfyrirkomulag.

Aðeins þrjú aukasæti fyrir Evrópu

Ekkert hefur verið gefið út um skiptingu sæta á HM á milli heimsálfa. Erlendir fjölmiðlar hafa þó greint frá því að mögulega muni Evrópa fá þrjú af aukasætunum sextán sem í boði eru.

Líklegt er að Afríka og Asía fái fjögur aukasæti hvor og Ameríkuálfurnar fái 2-3 aukasæti hvor. Þá gæti farið svo að Eyjaálfu verði tryggt sæti í keppninni en þurfi ekki að fara í gegnum umspil eins og áður.

Stórauknar tekjur

Infantino hefur áður sagt að HM eigi að stuðla að bættri knattspyrnu um allan heim og að ekkert auki áhuga meira á knattspyrnu í viðkomandi landi þegar lið þess kemst á HM.

Hann sagði að ákvörðun ætti ekki að vera fjáhagslegs eðlis þó svo að tekjur FIFA af stærri HM myndu stóraukast. Samkvæmt rannsókn FIFA er búist við að heildartekjur sambandsins af 48 liða HM verði 638 milljarðar króna og aukist þar með um 62 milljarða króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×