Körfubolti

Hannes um orð forseta ÍSÍ: „Ég myndi aldrei svara félagi í mínu sambandi svona“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, er ekki alveg nógu ánægður með þau orð sem Lárus Blöndal, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, lét falla í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi aðspurður um gagnrýni KKÍ og Fimleikasambandsins er varðar fyrri úthlutun Afrekssjóðs ÍSÍ.

Alla fréttina má sjá í spilaranum hér að ofan.

Rétt ríflega 150 milljónum króna var útdeilt í síðustu viku en þar fékk KKÍ 18 milljónir króna sem er það mesta í sögu sambandsins. Aftur á móti vildi Hannes fá meira í ljósi þess að Handknattleikssambandið fékk tíu milljónum krónum meira með svipuð verkefni á árinu eins og fara með A-landslið á stórmót.

Í viðtali við íþróttadeild í síðustu viku sagðist Hannes vonast til að styrkur KKÍ úr Afrekssjóði myndi tvöfaldast við seinni úthlutun ársins í vor en þar verður 100 milljónum deilt niður á samböndin.

„Við gerum ráð fyrir því að fá ekki undir 30-35 milljónum á þessu ár  miðað við hvernig starfið okkar er í dag. Þetta er það sem við þurfum og þetta er það sem við gerum ráð fyrir því að fá. Það eru 100 milljónir eftir og ég geri ráð fyrir því að við fáum allvega 15-20 milljonir af því,“ sagði Hannes.

Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, annar frá hægri, við úthlutun úr afrekssjóði.Vísir/Vilhelm
Ekki alveg að átta mig á þessu

Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Fimleiksambands Íslands, gekk mun lengra en Hannes og sagðist hreinlega fyllast vonleysi við að reyna að berjast fyrir sínu innan ÍSÍ. „Þetta eru vonbrigði. Við erum mögnuð hreyfing á Íslandi og stærsta kvennahreyfingin og að eiga ótrúlega sigra en einhvernveginn náum við því ekki inn til ÍSÍ og Afrekssjóðsins,“ sagði Sólveig við íþróttadeild 365.

Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, var spurður út í þessi viðbrögð KKÍ og FSÍ í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Hann gefur lítið fyrir þau og finnst þau ekki til þess fallin að þessi sambönd fái meira við næstu úhlutun.„Þessi viðbrögð við úthlutuninni per se eru ekki sérstaklega til þess fallin að mínu mati. En þau fá bara úthlutun sem er í samræmi við þær reglur sem gildi,“ sagði Lárus.

Í Bítinu á Bylgjunni í morgun var Hannes til viðtals og spurði Heimir Karlsson KKÍ-formanninn hvort hann túlkaði þetta eins og menn ættu bara að vera sáttir við sitt og halda sér saman.

„Ég veit það ekki. Menn verða að túlka þetta eins og þeir vilja. Ég vil samt halda til haga að við vorum ekki að gagnrýna okkar úthlutun. Við fengum spurningu frá blaðamanni um okkar styrk og svöruðum henni. Við fengum næst mest allra og það mesta í sögu sambandsins og erum ánægð með það,“ sagði Hannes.

„Við vorum spurð hvort við værum ánægði í ljósi þess sem önnur sambönd voru að fá og svo er ekki. Við gerðum ráð fyrir því að fá meira en allir formenn myndi segja að þeir vildu fá meira fyrir sitt afreksstarf.“

„Ég er ekki alveg að átta mig á þessu svari hjá honum [Lárusi]. Það verður hver og einn að túlka þetta fyrir sig en maður verður að passa hvað maður segir. Ég hefði kosið að hann hefði orðað þetta öðruvísi. Vði erum með öflugt fólk innan íþróttahreyfingarinnar og auðvitað hljótum við að mega tjá okkur. Sem formaður KKÍ myndi ég aldrei svara félagi í mínu sambandi svona,“ sagði Hannes S. Jónsson.

Allt viðtalið við Hannes má heyra hér að neðan.


Tengdar fréttir

Góð viðbót en mikill vill alltaf meira

Ríflega 150 milljónum var úthlutað úr afrekssjóði Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í gær en enn þá er eftir að úthluta 100 milljónum þegar nýr tímamótasamningur tekur gildi. Handboltinn fékk mest en þrátt fyrir hækkun eru ek




Fleiri fréttir

Sjá meira


×