Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni sem stýrir rannsókn málsins, staðfestir við Vísi að lögregla hafi myndskeið frá þessum tíma og svæði undir höndum.
Samkvæmt heimildum Vísis virðist af myndskeiðinu sem ökumanni bifreiðarinnar bregði þegar hann verður var við að ljós kviknar á eftirlitsmyndavélinni þegar hún greinir hreyfingu. Má merkja það á aksturslagi bifreiðarinnar sem ekið er skyndilega á brott.

Eins og Vísir greindi frá í dag lagði lögregla hald á rauða Kia Rio bifreið í hádeginu í dag sem hafði verið í leigu hjá starfsmanni verktakafyrirtækis í Hlíðarsmára. Umræddur starfsmaður tók bílinn á leigu í gær, mánudag, en hafði hann ekki í umsjá sinni um helgina.
Samkvæmt heimildum Vísis var bíllinn í leigu hjá erlendum ríkisborgurum frá því seinni part föstudags til laugardags. Grímur segir engan hafa réttarstöðu sakbornings á þessu stigi málsins en málið í algjörum forgangi.

Ekki liggur þó ljóst fyrir hvar í miðbænum hún fór upp í bílinn.