Fótbolti

Tottenham tapaði aftur á Wembley | Sjáðu markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bayer Leverkusen gerði góða ferð til London og vann 0-1 sigur á Tottenham á Wembley í E-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Tottenham hefur þar með tapað báðum heimaleikjum sínum í Meistaradeildinni í vetur. Spurs er í 3. sæti riðilsins með fjögur stig, tveimur stigum á eftir Leverkusen og fjórum stigum á eftir toppliði Monaco sem vann öruggan 3-0 sigur á CSKA Moskvu á sama tíma.

Staðan var markalaus í hálfleik í leiknum í kvöld. Javier Hernández fékk besta færið en skaut rétt framhjá marki Tottenham.

Kevin Kampl skoraði eina mark leiksins á 65. mínútu. Boltinn hrökk þá til hans inni í vítateignum og Slóveninn skoraði framhjá Hugo Lloris.

Eric Dier komst næst því að jafna metin þegar aukaspyrna hans small í slánni undir lokin. Lokatölur 0-1, Leverkusen í vil.

Í næstu umferð sækir Spurs Monaco heim og Leverkusen mætir CSKA í Moskvu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×