Skoðun

Mold

Jón Steindór Valdimarsson skrifar
Af moldu ertu kominn. Að moldu skalt þú aftur verða.

Mér verður stundum hugsað til þessara orða. Ekki vegna hverfulleika lífsins, heldur þess að þó að við mennirnir verðum vissulega að mold í fyllingu tímans þá er það alls ekki svo um öll okkar verk. Þau hafa margvísleg áhrif á umhverfið.

Sum áhrifin eru tímabundin en önnur varanleg. Margt er skaðlegt til skamms tíma, annað er skaðlegt til langs tíma, er óafturkræft og getur hrint af stað ógnvænlegri keðjuverkun. Gildir það t.d. um loftslagsbreytingar og mengun hafsins. Við stefnum framtíð barnanna okkar í voða ef við gætum ekki að okkur. Þess vegna eru umhverfismál eitt af forgangsatriðum í stefnu Viðreisnar.

Við höfum sett okkur metnaðarfulla stefnu um að virða og varðveita náttúruna og auðlindir hennar, en viljum nýta þær skynsamlega og með sjálfbærum hætti. Við viljum vera hófsöm og varfærin. Allar ákvarðanir á að taka á traustum vísindalegum grunni.

Ósnortin náttúra er eitt sterkasta aðdráttarafl Íslands. Þar eigum við mikil verðmæti sem ekki má glutra niður. Við eigum að móta okkur auðlindastefnu þar sem allir þættir eru teknir með í reikninginn. Ekki síst hagsmunir þeirra kynslóða sem á eftir okkur koma. Taka á markaðstengd gjöld af þeim sem nýta auðlindirnar.

Beita á hagrænum hvötum, eins og grænum sköttum, til þess að hvetja til hegðunar sem dregur úr mengun og verndar náttúruna. Við eigum að styðja fjölbreyttan og umhverfisvænan landbúnað og hvetja bændur til landverndar og sjálfbærrar framleiðslu.

Auðvitað á Ísland að taka fullan þátt í því að berjast gegn hnattrænum vandamálum á borð við loftslagsbreytingar og hættulega mengun hafsins.

Frjálslyndi þýðir nefnilega alls ekki afskiptaleysi í huga Viðreisnarfólks og þess vegna viljum við ekki láta reka á reiðanum í þessum mikilvægu málum. Afleiðingarnar eru alltof alvarlegar til þess.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×