Fótbolti

Walcott sá um Birki og félaga | Sjáðu mörkin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Theo Walcott kemur Arsenal yfir.
Theo Walcott kemur Arsenal yfir. vísir/getty
Arsenal vann sinn fyrsta sigur í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld þegar liðið lagði Basel, 2-0, á heimavelli sínum Emirates í Lundúnum.

Birkir Bjarnason var í byrjunarliði svissnesku meistaranna sem gerðu jafntefli við Ludogorets Razgrad í fyrstu umferðinni en Birki tókst ekki að gera eins og Alfreð Finnbogason í fyrra og skora á heimavelli Arsenal.

Theo Walcott kom Arsenal yfir með skallamarki á sjöundu mínútu og tvöfaldaði forskot heimamanna með öðru marki sínu á 26. mínútu. Skytturnar voru miklu betri aðilinn í leiknum og verðskulduðu sigurinn.

Birkir Bjarnason spilaði 78 mínútur fyrir Basel í kvöld og fékk gott færi í seinni hálfleik en viðstöðulaust skot hans á fjærstönginni eftir hornspyrnu fór framhjá markinu. Hann átti svo annað skot sem David Ospinna varði yfir slána.

Arsenal er með fjögur stig í riðlinum líkt og Paris-Saint-Germain sem vann Búlgarana í Ludogorets á útivelli í kvöld.

Ludogorets og Basel eru bæði með eitt stig og má búast við baráttu þeirra á milli um þriðja sætið og farseðil í 32 liða úrslit Evrópudeildarinnar.

Hér að neðan má sjá mörkin úr leiknum.

Theo Walcott kemur Arsenal í 1-0: Theo Walcott skorar aftur og kemur Arsenal í 2-0:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×