Erlent

Samkomulag um loftslagsmál undirritað í gær

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, ásamt Francois Hollande Frakklandsforseta
Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, ásamt Francois Hollande Frakklandsforseta Nordicphotos/AFP
Parísarsamkomulagið, samkomulag um loftslagsmál sem komist var að í París á síðasta ári, var undirritað í húsnæði Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra undirritaði samkomulagið fyrir hönd Íslands.

Alls undirritaði 171 ríki samkomulagið í gær, en aldrei hafa fleiri ríki undirritað alþjóðasáttmála.

„París mun móta líf allra framtíðarkynslóða, þeirra framtíð er í húfi,“ sagði aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon við undirritunina í gær. „Við erum í kapphlaupi við tímann. Ég hvet allar þjóðir til að skrifa undir samkomulagið,“ sagði aðalritarinn enn fremur.

Samkomulagið snýst meðal annars um að tryggja að hnattræn hlýnun verði innan við tvær gráður og að reynt verði að halda henni innan við eina og hálfa gráðu. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. apríl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×