Íslenski boltinn

Hugsum um okkur sjálfa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals. vísir/andri
Ólafur Jóhannesson er kominn með Valsliðið í bikarúrslit á sínu fyrsta ári sem þjálfari þess. Hann kveðst spenntur fyrir leiknum en þetta er í fjórða sinn sem hann stýrir liði í bikarúrslitaleik. „Það ríkir mikil tilhlökkun hjá okkur. Þetta er stór dagur og mikið undir,“ sagði Ólafur, en hvað þarf Valsliðið helst að varast í leik KR?

„Þetta snýst meira um að hugsa um okkur sjálfa. Við verðum að eiga toppleik til að vinna KR sem er eitt besta lið landsins og hefur verið að spila vel,“ sagði Ólafur en Valur vann KR 3-0 á Vodafone-vellinum í byrjun júní. „Við áttum fínan leik og það sýnir okkur að við getum unnið þá. En þetta er önnur keppni og allt annað og meira undir. Sá leikur hjálpar okkur ekki neitt.“

Mikið hefur verið rætt og ritað um meiðsli danska framherjans Patricks Pedersen í aðdraganda leiksins. Einnig ríkir óvissa með þátttöku Hauks Páls Sigurðssonar og Ingvar Þórs Kale. Ólafur vonast að sjálfsögðu til að þeir verði klárir í bátana fyrir leikinn í dag.

„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að geta stillt upp okkar sterkasta liði og eins og staðan er í dag getum við það ekki.“

Valsmenn hafa tapað þremur deildarleikjum í röð en hefur þessi niðursveifla einhver áhrif á þá fyrir leikinn í dag? „Nei,“ svaraði Ólafur. „Við tókum þá ákvörðun að ýta deildinni frá okkur og hætta að hugsa um hana og einbeita okkur bara að bikarúrslitaleiknum,“ sagði Ólafur enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×