Íslenski boltinn

Haukur Ingi: Ekki algjört svartnætti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Ingi var aðstoðarþjálfari Fylkis þegar liðið bjargaði sér frá falli sumarið 2013.
Haukur Ingi var aðstoðarþjálfari Fylkis þegar liðið bjargaði sér frá falli sumarið 2013. Fréttablaðið/daníel
Keflavík á fyrir höndum tvo gríðarlega mikilvæga leiki í næstu tveimur umferðum Pepsi-deildar karla í fótbolta. Liðið mætir tveimur liðum í fallbaráttunni; Leikni og Víkingi, á næstu dögum, en Keflvíkingar byrja á leik gegn Leikni á mánudagskvöldið í elleftu umferð.

„Við erum meðvitaðir um að við þurfum að ná í sem flest stig úr hverjum einasta leik,“ segir Haukur Ingi Guðnason, annar þjálfara Keflavíkur, við Fréttablaðið.

Keflavík vann fyrsta leikinn sem hann og Jóhann B. Guðmundsson stýrðu Keflavík í gegn ÍBV en hafa síðan tapað þremur í röð á móti Val, ÍA og Stjörnunni.

„Tveimur heimaleikjum töpuðum við á sjálfsmarki þannig að þetta hefur verið svolítið stöngin út hjá okkur. Við vonum að menn haldi áfram og missi ekki trúna. Þetta verður samt erfiðara með hverjum leiknum sem við töpum,“ segir Haukur Ingi.

Keflavík er á botninum með fjögur stig og -13 í markatölu. Fylkir er eina liðið sem hefur verið með fjögur stig eða færri (3 stig, -10 árið 2013) en bjargað sér frá falli í sjö ára sögu tólf liða deildar. Haukur Ingi var aðstoðarþjálfari þess liðs.

„Það var ýmislegt sem gerðist á þeim tíma. Fyrri helmingur mótsins var eins og undirbúningstímabil því leikmenn voru að spila sig saman. Það var samt aldrei neitt stress því maður sá alveg að eitthvað var að gerast,“ segir Haukur Ingi og staðan er svipuð núna segir hann:

„Við sjáum alveg glætu handan hornsins. Það er ekki bara algjört svartnætti og engin von. En menn þurfa samt að fara að spýta í lófana því þetta gerist ekki af sjálfu sér.“ - tom




Fleiri fréttir

Sjá meira


×