Skoðun

Stytting vinnudagsins og jákvæðar afleiðingar hennar

Ingi Vífill skrifar
Undanfarið hefur mikið verið rætt um láglaunastefnuna sem rekin hefur verið á Íslandi frá ómunatíð. Samstöðuhreyfing láglaunastefnunnar á marga formælendur úr röðum atvinnurekenda og stjórnenda á ýmsum stigum samfélagsins.

Atvinnurekandinn í litla fyrirtækinu segir það munu ríða fyrirtækinu að fullu ef laun hækka. Á meðan segir Seðlabankinn verðbólgudrauginn síðar munu ríða baggamuninn og gefa þegar vonlausri stöðu nýjan blæ af ömurleika. Sem er alveg ferlegt að hugsa til. Þá er ógleymdur stjórnarformaðurinn í ónefndri undirstöðugrein efnahagslífsins – segjum bara fiskvinnslu – sem segir hluthafaflótta óumflýjanlegan, ef í slíkar aðgerðir yrði ráðist. Sem er líka ferlegt að hugsa til.

Þetta er því hálfgerð pattstaða, í mínum augum. Enginn getur gert neitt, og enginn gerir það.

Allir eiga þeir samúð mína, þó mismikil sé.

Stytting vinnudagsins gæti verið lausn.

Stytting vinnudagsins úr hinum hefðbundnu 8 tímum í til dæmis 5 tíma gæti opnað ýmsa möguleika.

Ef aðili A – segjum bara Jóhann – sem vinnur hjá virtu fyrirtæki í undirstöðugrein efnahagsins –segjum bara fiskvinnslu – myndi vinna 5 tíma vinnudag í staðinn fyrir 8 eða 10, liti dæmið öðruvísi út. Að loknum vinnudegi væri orðinn til tími sem nýta mætti með ýmsum hætti. Jóhanni gæfist tími til að vinna meira og vinna sér inn meiri peninga. Til dæmis við þrif eða sölu Herbalife.

Þeir sem vel geta unað við mánaðarlaun sín þurfa ekki að vinna meira. Þeir gætu jafnvel byrjað að stunda áhugamál sín af kappi. Hugsið ykkur, ef fjármálastjóri í virtu fyrirtæki gæti farið á leiklistarnámskeið kl. 3 og verið kominn heim til að elda mat kl. 5!

Jóhann, aftur á móti, gæti þurft að vinna 8-9 tíma á dag. En ef það er með það að leiðarljósi að börnin hans þurfi ekki að alast upp á róló utan skipulagðrar dagskrár leikskólanna, hlýtur að vera hægt að finna flöt á því.

Það eina sem stæði út af borðinu væri að rafvæða skattkortskerfið. Sem er náttúrulega löngu tímabært, ef út í það er farið. Allt á pappír yrði ferlegt maus í þessu kerfi.

Vandamál gæti orðið með opnunartíma þjónustuaðila. En ég tel það einnig orðið löngu tímabært að taka þá til endurskoðunar líka. Það kemst enginn í bankann milli 9 og 4! Það eru allir í vinnunni!

Það sem þetta í raun fjallar um.

Það hlýtur að vera flestum ljóst að glaður starfsmaður er betri starfskraftur en óhamingjusamur. Þeir eru ólíklegri til að fara í verkfall, ólíklegri til að stunda óheiðarleika í vinnu sinni og framleiðni þeirra er að öllum líkindum meiri.

Áhyggjur af afkomu eru þrándur í götu gleðinnar, sama hversu oft við kyrjum að hamingjan komi innan frá.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×