Körfubolti

Njarðvíkingar ætla að ná í íslenskan leikmann á næstu dögum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þjálfarinn Friðrik Ingi Rúnarsson ræðir við sína menn.
Þjálfarinn Friðrik Ingi Rúnarsson ræðir við sína menn. Vísir/Anton
Gunnar Örlygsson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, segir að það sé enginn vafi á því að Njarðvík ætli sér að styrkja liðið enn frekar fyrir átök vetrarins í Domino's-deild karla.

Haukur Helgi Pálsson samdi við Njarðvík á dögunum en liðið er nú í leit að leikstjórnanda. Björn Kristjánsson, leikmaður KR, var orðaður við liðið í síðustu viku en ásakanir gengu á víxl á milli liðanna vegna þess máls eins og Vísir fjallaði um.

Sjá einnig: Njarðvík og ÍR ræddu við Björn án leyfis

„Við liggjum undir feldi og það er ekkert stress á okkur,“ sagði Gunnar í samtali við Vísi í dag.

„Við höfum hug á að ná í leikstjórnanda fyrir 15. nóvember. Og þá erum við að hugsa um íslenskan leikmann,“ segir hann enn fremur.

Sjá einnig: Teitur: Enginn frá Njarðvík hafði samband við Björn í vikunni

Fram kom á karfan.is að Keflvíkingurinn og harðjaxlinn Gunnar Einarsson væri að æfa með Njarðvík en Gunnar gaf nú lítið fyrir það.

„Hann hefur verið að æfa með B-liðinu. Ég æfi með B-liðinu og mæti örugglega á næstu æfingu til að lemja á nafna mínum,“ segir Gunnar og hlær.


Tengdar fréttir

Körfuboltakvöld: Björnsmál | Myndband

Mál Björns Kristjánssonar, bakvarðar Íslandsmeistara KR, var til umræðu í Domino's Körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport á föstudaginn.

ÍR-ingar segjast ekki hafa rætt við Björn

ÍR-ingar sendu frá sér tilkynningu í dag þar sem þeir hafna því að hafa rætt við Björn Kristjánsson, bakvörð Íslandsmeistara KR, eins og Böðvar Guðjónsson, formaður meistaraflokksráðs KR, hélt fram í samtali við Vísi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×