Skoðun

Stuðlar matarverð á Íslandi að heilsuspillandi mataræði?

Lars Óli Jessen skrifar
„Verðmunur er á mat eftir hollustugildi, á þann veg að hann stuðlar að óheilsusamlegu mataræði og matarverð er því ákveðin hindrun fyrir fólk sem sækist eftir því að fara eftir núverandi ráðleggingum stofnana um mataræði”. Þetta voru meðal helstu niðurtaða í rannsókn sem kannaði matarverð ólíkra vöruflokka út frá hollustugildi. Rannsóknin var lokaverkefni mitt í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík síðasta vor.

Til þess að uppfylla orkuþörf meðalmanns er talið æskilegt að neyta um 2000 hitaeininga á dag, þó sumir þurfi meira og aðrir minna. Lengi vel sá Manneldisráð Íslands um að búa til svokallaða hollustukörfu, sem innihélt hæfilegt magn vikuskammts af öllum matvörum sem mælt var með að almenningur borðaði. Í rannsókninni var notast við nýjustu útgáfu hollustukörfunnar til viðmiðunar við þá vöruflokka sem kannað var verð á, en þeir voru grænmeti, ávextir, heilsusafar, gosdrykkir, sælgæti og kexkökur. Reiknað var út hversu dýrt væri að uppfylla orkuþörf meðalmanns í heila viku bæði með hollustukörfunni og einnig hverjum og einum vöruflokki fyrir sig.

Við verðsamanburð þar sem tekið er mið af hitaeiningafjölda kemur skýrt í ljós að þeir vöruflokkar sem teljast hollir eru dýrari heldur en þeir óhollu. Grænmeti, ávextir og heilsusafar voru í öllum tilvikum dýrari en hollustukarfan á meðan óhollu vöruflokkarnir þrír voru ódýrari, þ.e. gosdrykkir, sælgæti og kexkökur. Nánar má sjá meðalverð allra vöruflokka sem uppfyllir hitaeiningaþörf meðalmanns í heila viku í töflunni hér til hliðar.

Vöruflokkur - Verð vikuskammts

Hollustukarfa - 7.170 kr

Grænmeti - 56.496 kr

Ávextir - 11.326 kr

Heilsusafar - 14.981 kr

Gosdrykkir - 3.972 kr

Sælgæti - 4.145 kr

Kexkökur - 2.597 kr

Í þjóðfélagi þar sem er mikil almenn vitneskja um lýðheilsu og hvað það er sem hefur áhrif á hana er það mat höfundar að verðlag matvæla ætti ekki að vera eins og það er á Íslandi í dag. Þrátt fyrir ýmsar jákvæðar breytingar í samfélaginu undanfarin ár og áratugi á sviði heilsu og lífsgæða er alltaf hægt að gera betur. Vissulega er það á ábyrgð hvers einstaklings fyrir sig að huga að eigin heilsu, en aftur á móti er það á ábyrgð stjórnvalda að hanna samfélag sem auðveldar fólki að fara eftir ráðleggingum stofnana er varða heilsu. Meðal annars má þar nefna matarverð, en þessi rannsókn sýnir fram á að hollur matur er dýrari en óhollur matur, sem hefur neikvæð áhrif á matarval almennings.

Ritgerðina er hægt að lesa í heild sinni hér á Skemmunni.






Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×