Íslenski boltinn

Kennie Chopart á leið til Fjölnis

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kennie Chopart er á leið aftur til Íslands.
Kennie Chopart er á leið aftur til Íslands. vísir/arnþór
Danski kantmaðurinn Kennie Chopart er búinn að semja við Fjölni í Pepsi-deild karla í fótbolta, samkvæmt heimildum Vísis, og verður löglegur með liðinu þegar glugginn opnar 15. júlí.

Þessi kraftmikli og öflugi leikmaður þekkir vel til á Íslandi, en hann spilaði 46 leiki í deild og bikar fyrir Stjörnuna árin 2012 og 2013 og skoraði tíu mörk.

Hann gekk til liðs við Arendal í norsku C-deildinni í janúar í fyrra en hefur nú ákveðið að snúa aftur í Pepsi-deildina.

Chopart skoraði þrjú mörk og gaf fimm stoðsendingar í 17 leikjum í Pepsi-deildinni 2013, en árið á undan skoraði hann fimm mörk og gaf fimm stoðsendingar í 22 leikjum.

Þetta ætti að vera mikill liðsstyrkur fyrir Fjölnisliðið sem er að fylla í þau skörð sem mynduðust eftir brotthvarf Daniels Ivanovski og Emils Pálssonar.

Fjölnir mætir Breiðabliki í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport annað kvöld, en Chopart verður ekki löglegur fyrr en í tólftu umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×