Íslenski boltinn

Þjálfarabreyting á miðju tímabili heppnaðist ekki síðast hjá Víkingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Marteinsson og Bjarnólfur Lárusson.
Andri Marteinsson og Bjarnólfur Lárusson. Vísir/Stefán
Víkingar ákváðu í dag að reka Ólaf Þórðarson úr stöðu annars þjálfara liðsins og láta Milos Milojevic stjórna liðinu einn út tímabilið.

Það eru liðin fjögur ár síðan að Víkingar skiptu síðast um þjálfara á miðju tímabili og það gerðist einnig á sama tímapunkti eða þegar fyrri umferðin var búin. Sumarið 2011 var einnig tímabilið þar sem Víkingsliðið féll síðast úr Pepsi-deildinni.

Andra Mateinssyni var sagt upp störfum sem þjálfari Víkings 19. júlí 2011 eftir 1-0 tap á móti Fram í 11. umferð kvöldið áður. Víkingsliðið var þá í næstneðsta sæti deildarinnar og fjórum stigum frá öruggu sæti.

Víkingsliðið hafði aðeins unnið 1 af 11 fyrstu leikjum sínum í Pepsi-deildinni og var aðeins búið að ná í 1 stig af 18 mögulegum í síðustu sex deildarleikjum sínum undir stjórn Andra.

Bjarnólfur Lárusson, þáverandi 2. flokksþjálfari félagsins, tók við Víkingsliðinu 20. júlí og stýrði liðinu út tímabilið.

Bjarnólfur byrjaði skelfilega því liðið tapaði 6-1 á móti Þór í hans fyrsta leik. Fyrsti sigurinn undir hans stjórn kom ekki fyrr en 61 degi eftir að hann tók við þegar liðið vann 6-2 sigur á Breiðabliki. Víkingsliðið var þá að leika sinn níunda leik undir hans stjórn og var þegar fallið úr deildinni þegar kom að þessum leik.

Víkingar enduðu í tólfta og síðasta sæti þetta sumar og féllu úr Pepsi-deildinni. Það tók þá síðan tvö tímabil undir stjórn Ólafs Þórðarsonar að vinna sér aftur sæti í deild þeirra bestu.

Kringumstæðurnar í dag eru ekki þær sömu og fyrir fjórum árum enda heldur Milos Milojevic áfram með liðið. Víkingar vonast líka til að niðurstaðan verði líka allt önnur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×