Íslenski boltinn

Óli Þórðar um rauða spjaldið: Hann þoldi ekki sannleikann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings, horfir á seinni hálfleikinn úr stúkunni.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings, horfir á seinni hálfleikinn úr stúkunni. Vísir/ernir
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings, var allt annað en ánægður með þá ákvörðun Garðars Arnar Hinrikssonar dómara að dæma Víkingum ekki víti seint í fyrri hálfleik gegn Breiðabliki í kvöld.

Breiðablik vann Víkinga, 4-1, en í stöðunni 2-0 var Andri Rúnar Bjarnason felldur, að því er virtist, í teig Blika. Garðar dæmdi hins vegar ekkert. Í hálfleik gekk Ólafur hart fram í mótmælum sínum og var fyrir það rekinn upp í stúku.

„Ég þurfti að ræða aðeins málin við dómarann í hálfleik og hann þoldi ekki sannleikann. Hann átti að gefa okkur víti í fyrri hálfleik. Það sáu allir en hann þorði ekki að dæma það,“ sagði Ólafur spurður um málið.

Hann segir að ákvörðun Garðars Arnar hafi breytt miklu í leiknum. „En það var ekki það sem réði úrslitum í leiknum. Blikarnir mættu mun grimmari en við til leiks og við gáfum þeim tvö auðveld mörk í byrjun.“

Ólafur sagði þrátt fyrir allt ekki vera ánægður með viðbrögð sinna manna eftir að hafa lent 2-0 undir. Víkingar skoruðu þá mark snemma í síðari hálfleik og voru nálægt því að jafna.

„Nei, við fengum á okkur tvö mörk í seinni hálfleik líka og ég er ekki sáttur við það. Við þurfum að verja markið okkar ef við ætlum að fá einhver stig.“

Víkingur vann síðast leik í fyrstu umferð tímabilsins en Ólafur hefur þrátt fyrir það ekki áhyggjur af stöðu liðsins.

„Nei, ég hef ekki áhyggjur en auðvitað er þetta drullusvekkjandi. En ég vil sjá að menn leggi sig meira fram þegar það er svona mikið í húfi. Það vantaði klárlega upp á það í dag því annars hefðum við ekki fengið svona mörg mörk á okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×