Skoðun

Hvað sagði Juncker?

Valgerður Bjarnadóttir skrifar
Er það ekki svolítið sérkennilegt að svo mikil umræða sem raun ber vitni verði um hvað Juncker, nýr forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði í ræðu sinni í vikunni sem leið? Bið fólk að athuga að ég segi og skrifa um hvað hann sagði en ekki það sem hann sagði.

Hann sagði ekkert um að ESB mundi hætta samningaviðræðum um aðild að samstarfinu. Hann sagði einmitt að samningaviðræðum sem eru í gangi yrði haldið áfram (…ongoing negotiations will continue…). Auðvitað er þó ólíklegt að framkvæmdastjórnin eyði miklum tíma á samningafundum ef hún er ein á fundunum eins og blasir við í samningaviðræðum við okkur. Eins og við öll vitum ætlar ríkisstjórnin ekki að gera út neinn mannskap til að sitja slíka fundi af okkar hálfu.

Evrópusambandið ætlar hins vegar ekki að taka ómakið af utanríkisráðherranum og ríkisstjórninni að slíta þann þráð sem þegar hefur verið spunninn í aðildarviðræðum. Það er engu sjálfhætt í þeim efnum eins og Gunnar Bragi lætur liggja að. Ríkisstjórnin hefur hins vegar sagt að þráðurinn verði ekki tekinn aftur upp nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Kannski er umræðan eins og hún er vegna þess að undanfarið hefur færst í vöxt að stjórnmálamenn gefi yfirlýsingar sem þeir vilja síðan lítið kannast við, eða að minnsta kosti túlka á annan veg en orðanna hljóðan. Á Austurvelli voru yfirlýsingar stjórnmálamanna spilaðar viku eftir viku til að rifja upp hvað sagt var í kosningabaráttinni fyrir meira en ári. En það var reyndar áður en okkur var tilkynnt að ummæli í kosningabaráttu væru bara til þess brúks, og hefðu ella enga þýðingu.

Gjaldeyrishöft hafa nú verið hér á landi í bráðum sex ár. Það er áríðandi að sem mestur friður verði um hvernig þau verða afnumin, þó ólíklegt megi telja að um það náist fullkomin sátt. Þess vegna er áríðandi að ekki verði klippt á línuna til Evrópusambandsins nema að áætlun liggi fyrir um afnám haftanna. Við getum haft mismunandi skoðanir á aðild að Evrópusambandinu, en það má ekki fækka leiðunum sem hugsanlegar eru til afnáms haftanna.




Skoðun

Sjá meira


×