Erlent

Mótvægisaðgerðir ekki óviðráðanlegar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Félagar í Greenpeace-samtökunum notuðu að venju tækifærið á meðan loftslagsnefndin fundaði og vöktu athygli á málstað sínum.
Félagar í Greenpeace-samtökunum notuðu að venju tækifærið á meðan loftslagsnefndin fundaði og vöktu athygli á málstað sínum. Vísir/AP
Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna segir að mannkynið verði að skipta hratt yfir í endurnýjanlega orkugjafa, eigi að takast að hægja á hlýnun jarðar.

Þrátt fyrir þær mótvægisaðgerðir, sem gripið hefur verið til undanfarna áratugi, hefur útblástur gróðurhúsalofttegunda, sem ýta undir hlýnun jarðar, aukist í staðinn fyrir að dragast saman. Að meðaltali hefur útblásturinn aukist um 2,2 prósent á ári á tímabilinu frá árinu 2000 til 2010.

„Skilaboðin frá vísindunum eru skýr: Til þess að komast hjá því að hafa hættuleg áhrif loftslagskerfið, þá þurfum við að snúa við blaðinu,“ sagði Ottmar Edenhofer, einn þriggja formanna vinnuhóps loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, sem í gær kynnti nýjustu afurð sína á blaðamannafundi í Berlín.

Edenhofer tók hins vegar fram að kostnaðurinn við þær aðgerðir, sem nauðsynlegar eru, þurfi alls ekki að vera óviðráðanlegur: „Það kostar ekki allan heiminn að bjarga jörðinni,“ sagði hann.

Í skýrslunni er fjallað ítarlega um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, bæði þær sem gripið hefur verið til á síðustu áratugum og þær sem enn er mögulegt að grípa til.

Sú ódýrasta og hættuminnsta sem völ er á væri að hætta notkun jarðefnaeldsneytis á borð við kol og olíu strax á allra næstu áratugum. Sú leið krefst hins vegar þess að mikil umskipti verði bæði í pólitík og viðskiptum á heimsvísu.

„Alþjóðleg samvinna er lykillinn að því að ná markmiðum mótvægisaðgerða. Það er svo áskorun út af fyrir sig að setja á laggirnar þær alþjóðastofnanir sem nauðsynlegar eru til slíkrar samvinnu,“ sagði Edenhofer í gær.

Um 1.250 vísindamenn hafa unnið að gerð skýrslunnar og niðurstaðan hefur verið samþykkt af stjórnvöldum 194 landa, eða nánast allra ríkja heims.

Skýrslan er sú þriðja og jafnframt síðasta frá jafn mörgum vinnuhópum loftslagsnefndarinnar sem birst hefur í vetur. Hún verður birt í heild á morgun, en í gær var aðeins birtur útdráttur úr henni til kynningar. Í október næsta haust verður svo endanlegur texti heildarskýrslunnar birtur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×