Íslenski boltinn

Tryggvi ráðinn aðstoðarþjálfari ÍBV

Tryggvi í búningi ÍBV.
Tryggvi í búningi ÍBV. vísir/anton
ÍBV er búið að finna aðstoðarmann Jóhannesar Harðarsonar þjálfara en þeir gengu í gær frá ráðningu Tryggva Guðmundssonar sem aðstoðarþjálfara.

Tryggvi skrifaði undir þriggja ára samning við félagið og mun sjá um þjálfun þeirra leikmanna félagsins sem eru á höfuðborgarsvæðinu. Hann mun einnig koma að mótun leikmanna annarra flokka félagsins.

Eyjamenn hafa sett af stað þriggja ára verkefni sem miðar að því að koma ÍBV í fremstu röð og byggja upp lið sem hefur það markmið að ná betri árangri en undanfarin ár.

Fréttatilkynning ÍBV:

Knattspyrnuráð ÍBV hefur gengið frá ráðningu Tryggva Guðmundssonar sem aðstoðarþjálfara mfl. karla ÍBV í knattspyrnu.  Samningur aðila er til þriggja ára og mun Tryggvi sjá um þann hóp leikmanna ÍBV sem verða búsettir í Reykjavík á undirbúningstímabilinu.

Tryggvi mun starfa með nýráðnum þjálfara liðsins, Jóhannesi Þór Harðarsyni í því þriggja ára verkefni sem miðar að því að koma ÍBV í fremstu röð, og byggja upp lið sem hefur það markmið að ná betri árangri en undanfarin ár.  Einnig mun Tryggvi koma að mótun leikmanna annarra flokka félagsins ásamt aðalþjálfara, í góðu samstarfi við þá þjálfara sem starfa hjá félaginu.  Markmið beggja, félagsins og Tryggva, er að byggja upp lið sem leikur skemmtilega knattspyrnu, byggir á þeirri Eyjastemmingu sem lið ÍBV á að byggja á, og síðast en ekki síst að efla yngri leikmenn liðsins.

Tryggvi er vel þekktur sem einn besti knattspyrnumaður sem Eyjarnar hafa alið af sér.  Tryggvi lék í mörg ár hérlendis með Eyjaliðinu og varð fljótt einn af lykilleikmönnum þess liðs.  Tryggvi lék með Eyjaliðinu árin 1992-1993, 1995-1997 og 2010-2012.  Hann varð fljótt alræmdur inni í teig andstæðingana og varð markakóngur efstu deildar árin 1997 og 2005. Einnig varð hann Íslandsmeistari með ÍBV árið 1997 og fór eftir það tímabil í atvinnumennsku í Noregi.  Þar lék Tryggvi árin 1998-2003 með liðum Tromsö og Stabæk með góðum árangri.  Árið 2005 lék Tryggvi með liði Örgryte í Svíþjóð og kom aftur heim árið 2005 og lék með liði FH á miklu velgengistímabili þar sem margir titlar komu í hús. Árið 2010 kom Tryggvi svo aftur heim til ÍBV og tók þátt í að búa til öflugt Eyjalið sem barðist um Íslandsmeistaratitilinn árin 2010-2012.

Tryggvi á að baki leiki með öllum landsliðum Íslands og þar af 42 A-landsleiki,

Tryggvi Guðmundsson hefur stórt Eyjahjarta, og hefur mikinn metnað fyrir því að ÍBV byggi upp öflugt lið. Nú mun Tryggvi verða hluti af þeim hópi leikmanna, þjálfara og knattspyrnuráðsmanna sem munu sameiginlega í góðu samstarfi efla ÍBV, búa til öflugt lið og hlúa vel að yngri leikmönnum liðsins.

Knattspyrnuráð ÍBV býður Tryggva velkominn til starfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×