Íslenski boltinn

Aalesund gengur frá kaupum á Aroni Elís fyrir vikulok

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Elís Þrándarson hefur verið mjög góður í sumar.
Aron Elís Þrándarson hefur verið mjög góður í sumar. vísir/stefán
Samkvæmt heimildum Vísis er norska úrvalsdeildarfélagið Aalesund að ná samkomulagi við Pepsi-deildar lið Víkings um kaup á miðjumanninum efnilega, Aroni Elís Þrándarsyni.

Viðræður hafa staðið yfir síðan norska félagið lagði fyrst inn kauptilboð í Aron Elís í byrjun mánaðar. Því var hafnað en Aalesund var fljótt að koma með annað tilboð.

Forsvarsmenn Aalesund eru væntanlegir til landsins og herma heimildir Vísis að gengið verði frá samningum fyrir lok vikunnar. Aron Elís gengur svo í raðir norska félagsins eftir tímabilið hér heima.

Aron Elís hefur verið einn af aðalmönnunum á bakvið gott gengi nýliða Víkings í Pepsi-deildinni í sumar, en hann tók á mikinn sprett um mitt mót þar sem Víkingar röðuðu inn stigum. Hann er í heildina búinn að skora fimm mörk og leggja upp annað eins í sextán deildarleikjum.

Aalesund hefur verið að gæla við fallbaráttuna í norsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð, en liðið er búið að vinna þrjá af síðustu fimm leikjum sínum og er nú með 28 stig í 10. sæti, fimm stigum frá umspilssæti og sjö stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×