Íslenski boltinn

Sjö leikir í Lautinni lyftu Fylki úr fallbaráttu í Evrópuslag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fylkismenn unnu fjóra leiki af sjö.
Fylkismenn unnu fjóra leiki af sjö. vísir/pjetur
Annað árið í röð er Fylkir að bjarga andliti í seinni umferðinni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu og rúmlega það. Í fyrra var liðið í fallsæti eftir ellefu umferðir, en var svo eitt besta lið deildarinnar í seinni hlutanum.

Svipaðir hlutir eru að gerast í Lautinni á þessari leiktíð, en Fylkir hefur verið á miklum skriði í undanförnum leikjum og rakað saman stigum. Það er nú komið langt frá fallsæti og farið að berjast um Evrópusæti.

Fylkismenn horfðu hýru auga til sjö leikja í röð á heimavelli, en mótið raðaðist þannig upp fyrir Árbæjarliðið eftir erfiða byrjun þar sem Fylkismenn gátu ekki spilað á heimavelli vegna vallaraðstæðna.

Ásmundur Arnarsson er annað árið í röð að gera mun betri hluti með Fylkisliðið í seinni umferðinni.vísir/pjetur
Heimaleikjatörnin hófst með sigri á Fram, 2-0, en því fylgdu töp gegn langbestu liðum deildarinnar; Stjörnunni og FH. Síðan þá hefur Fylkir ekki tapað leik.

Fylkismenn fengu Albert Brynjar Ingason aftur heim sem spilaði endurkomuleikinn á móti ÍBV og skoraði í 3-1 sigri liðsins. Hann skoraði svo mark Fylkis í 1-1 jafntefli gegn Víkingi í umferðinni á eftir því og tvö í öruggum 4-1 sigri á Þór í síðustu viku.

Albert Brynjar var ekki á skotskónum í gær, en mörk frá ÁsgeiriEyþórssyni og Oddi Inga Guðmundssyni tryggðu sigurinn á bitlausu liði Vals, 2-0.

Í heildina er Fylkir búið að næla í tíu stig af síðustu tólf mögulegum og þrettán stig af 21 sem í boði voru í þessum sjö heimaleikjum. Liðið er nú með 21 stig, fimm stigum frá Víkingum sem eru í fjórða sæti Pepsi-deildarinnar, en það mun væntanlega á endanum gefa Evrópusæti.

vísir/pjetur
Þessi uppsveifla Fylkis er keimlík þeirri í fyrra, en þá var liðið með frábæran framherja í Viðari Erni Kjartanssyni og Andrés Már Jóhannesson komst í gang um mitt mót eftir meiðsli. Andrés hefur verið mjög góður í síðustu leikjum og þá hefur endurkoma FinnsÓlafssonar gert mikið fyrir Fylkismenn.

Fylkir kveður nú lautina og spilar aftur útileik í næstu umferð þegar það mætir Breiðablik á útivelli, en liðið mætir einig Keflavík, Fjölni og Fram í síðustu umferðunum auk bikarmeisturum KR. Dauðafæri á enn meiri stigasöfnun og afar óvæntu Evrópusæti.

Stig Fylkis fyrir heimaleikjarispuna: 8 (2-2-6)

Stig Fylkis í heimaleikjarispunni: 13 (4-1-2)

Samtals: 23 (6-3-8)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×