Íslenski boltinn

Ásgeir: Pabbi sagði mér á spítalanum að ég hefði skorað mark

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fylkismenn hlúa að Ásgeiri eftir að hann rotaðist í Lautinni á sunudaginn.
Fylkismenn hlúa að Ásgeiri eftir að hann rotaðist í Lautinni á sunudaginn. vísir/valli
„Heilsan er bara góð núna. Ég fékk smá heilahristing og var svolítið ruglaður um kvöldið þegar þetta gerðist,“ segir Ásgeir Eyþórsson, miðvörður Fylkis, í samtali við vísi.

Ásgeir kom Fylkismönnum í 1-0 á móti Val í 17. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta með skallamarki á 37. mínútu á sunnudaginn, en rotaðist um leið og var sendur með sjúkrabíl upp á spítala.

„Mér var haldið yfir nótt því ég var með svolítinn hausverk, en ég vaknaði nokkuð góður daginn eftir. Þetta er ekkert alvarlegt - bara smá heilahristingur. Ég þarf að hvíla í svona viku til tíu daga og missi nánast pottþétt af næsta leik,“ segir Ásgeir en Fylkir mætir Breiðabliki í Kópavoginum á sunnudaginn.

Ásgeir heldur sig hafa fengið högg frá KolbeiniKárasyni, leikmanni Vals, um leið og hann skoraði markið sem varð til þess að hann rotaðist. Sjálfur man hann ekkert eftir atvikinu.

„Ég man ekkert eftir markinu eða neinu. Ég rankaði bara við mér í sjúkrabílnum og heyrði pabba svo segja mér að ég hefði skorað. Ég var því mjög spenntur að sjá markið í Pepsi-mörkunum í gær. Það var fínt að þessi skalli skilaði einhverju fyrst ég rotaðist. Það hefði verið helvíti leiðinlegt að rotast bara í einhverju skallaeinvígi á miðjum vellinum,“ segir Ásgeir Eyþórsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×