Íslenski boltinn

Arnar Már klárar líklega tímabilið með Stjörnunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Már hefur komið að þrettán mörkum Stjörnunnar í Pepsi-deildinni.
Arnar Már hefur komið að þrettán mörkum Stjörnunnar í Pepsi-deildinni. vísir/daníel
Arnar Már Björgvinsson, framherji Stjörnunnar í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, klárar líklega tímabilið með liðinu, en til stóð hjá honum að fara út í meistaranám í lögfræði í Hollandi.

„Það er alveg vonlaust að vera að fara út núna. Annars átti ég að fara út eftir KR-leikinn á sunnudaginn,“ sagði Arnar Már við Vísi í dag, en hann var með Stjörnuliðinu í rútu á leiðinni á æfingu á San Siro-vellinum í Mílanó þar sem það mætir Inter í Evrópudeildinni annað kvöld.

Arnar Már hefur verið frábær í liði Stjörnunnar á tímabilinu, en hann hefur skorað sex mörk og gefið sjö stoðsendingar í Pepsi-deildinni. Hann hefur því í heildina komið að þrettán af 30 mörkum Garðbæinga í deildinni.

„Það gengur vel hjá liðinu og mér persónulega. Við verðum að klára þetta núna,“ sagði Arnar Már, en Stjarnan er með 36 stig, tveimur stigum minna en FH þegar bæði lið eiga fimm leiki eftir.

„Fótboltinn er að halda mér hérna. Það er bara þannig. Stjarnan ætlar að aðstoða mig og vonandi er hægt að finna eitthvað þannig ég græði á því að vera heima.“

„Ég veit ekki hvort ég fari bara í skóla hérna eða fái kannski einhverja vinnu tengda náminu. Það kemur í ljós, en það þýðir ekkert að vera að fara út núna,“ sagði Arnar Már Björgvinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×