Íslenski boltinn

Aðeins stærðfræðin getur tekið Pepsi-deildarsætið af Leiknismönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Arnþór
Leiknismenn eru svo gott sem búnir að tryggja sér sæti í Pepsi-deildinni í fótbolta á næsta tímabili eftir markalaust jafntefli á móti Víkingi í Ólafsvík í kvöld. Leiknir hefur aldrei áður spilað í efstu deild karla.

Leiknir er með níu stiga forskot á Víkinga og miklu betri markatölu þegar aðeins níu stig eru eftir í pottinum. Leiknir er með 19 mörk í plús en Víkingar eru aðeins með 3 mörk í plús. Ekkert annað lið á möguleika á að senda Leiknisliðið niður í 3. sætið.

 

Selfyssingar unnu gríðarlega mikilvægan 3-1 sigur á KV í sex stiga leik í fallbaráttunni á Selfossi. KV er þar með sex stigum frá öruggu sæti þegar aðeins níu stig eru eftir í pottinum. Selfoss fór langt með að tryggja sér sæti sitt enda nú sjö stigum á undan KV.

Ragnar Þór Gunnarsson, Luka Jagacic og Andri Björn Sigurðsson skoruðu mörk Selfossliðsins sem komu öll á síðustu fimmtán mínútum leiksins. KV minnkaði muninn í lokin en er í mjög slæmum málum eftir fimmta tapið í síðustu sex leikjum.

KA og Haukar gerðu markalaust jafntefli í síðasta leik kvöldsins þar sem KA-menn töldu sig hafa skorað fullkomlega löglegt sigurmark.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá vefsíðunni úrslit.net.



Úrslit og markaskorarar í 1. deild karla í kvöld:

KA - Haukar 0-0

Víkingur Ó. - Leiknir R. 0-0

Selfoss - KV  3-1

1-0 Ragnar Þór Gunnarsson (76.), 2-0 Luka Jagacic (87.), 3-0 Andri Björn Sigurðsson (89.), 3-1 Einar Már Þórisson (90.).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×