Íslenski boltinn

Guðmundur: Þetta er risaleikur fyrir okkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Benediktsson í þungum þönkum.
Guðmundur Benediktsson í þungum þönkum. Vísir/Stefán
Breiðablik tekur á móti Fram í gríðarlega mikilvægum leik í fallbaráttu Pepsi-deildar karla í kvöld. Bæði lið eru með 15 stig - líkt og Fjölnir og Fylkir - en Blikar eru með betri markatölu (-4 gegn -9) og sitja því í 8. sæti, en Fram í því 10.

Blikum hefur gengið illa að undanförnu, en liðið hefur aðeins fengið þrjú stig í síðustu fjórum leikjum. Guðmundur Benediktsson, sem tók við liði Breiðabliks af Ólafi H. Kristjánssyni í byrjun júní, trúir því að sínir menn geri sér grein fyrir alvarlegri stöðu liðsins í deildinni.

„Ég er sannfærður um það, enda erum við búnir að ræða það í mikið í vikunni hversu alvarleg staðan er og hversu mikið við þurfum að leggja á okkur til að ná í því þau stig sem við þurfum til að bjarga okkur frá falli,“ sagði Guðmundur í samtali við Vísi í dag.

„Þetta er risaleikur fyrir okkur, eins og allir leikir sem eftir eru, og við verðum að vera í toppstandi ef við ætlum að fá eitthvað út úr leiknum,“ sagði Guðmundur ennfremur og bætti við:

„Fram-liðið er búið að þjappa sér vel saman og hefur unnið tvo leiki í röð og það er alveg ljóst að við þurfum að eiga afbragðs leik til að vinna í kvöld.“

En hvað þurfa Blikar að gera til að vinna leikinn mikilvæga í kvöld?

„Við þurfum að vera þéttir til baka og berjast um hvern einasta bolta, en það er það sem Framarar hafa gert í undanförnum leikjum. Þeir hafa lagt mikla vinnu í leikina og varist vel, bæði gegn Þór og Val.

„Að sama skapi þurfum við að reyna að brjóta þá á bak aftur og skora mark eða mörk. Þannig hefur undirbúningur okkar verið þessa vikuna - við höfum verið að reyna að finna leiðir til að samtvinna þetta,“ sagði Guðmundur sem talaði um hann hefði séð framfarir á varnarleik Blika í 1-1 jafnteflinu gegn Fjölni, en Kópavogsliðið fékk á sig fjögur mörk gegn Keflavík í leiknum þar á undan.

„Já, alveg klárlega. Við vörðumst ekki sem lið í Keflavíkurleiknum, en við spiluðum heilt yfir mjög góðan varnarleik gegn Fjölni og ég var ósáttur að hafa ekki haldið hreinu, því mér fannst það liggja í loftinu.

„En við verðum líka að líta aðeins á björtu hliðarnar. Við höfum allavega ekki verið að tapa leikjum, sem er jákvætt. En auðvitað vildum við vera með fleiri sigra,“ sagði Guðmundur sem bætti við að allir af hans leikmönnum væru klárir í slaginn gegn Fram í kvöld.


Tengdar fréttir

Gummi Ben: Ég held að ég hafi gert risamistök

Guðmundur Benediktsson, þjálfari Breiðabliks, var ómyrkur í máli eftir 4-4 jafntefli gegn Keflavík á heimavelli í Pepsi-deild karla í kvöld en Blikar tryggðu sér jafntefli með tveimur mörkum undir lok leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×