Íslenski boltinn

Páll Viðar: Allt liðið og þjálfararnir bera ábyrgð á þessu

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Fylkisvelli skrifar
Páll Viðar Gíslason horfði upp á sína menn tapa fjórða leiknum í röð.
Páll Viðar Gíslason horfði upp á sína menn tapa fjórða leiknum í röð. vísir/pjetur
„Mikið væri gott að geta einhvern tíman farið í viðtal eftir sigurleik. Mörkin í fyrri hálfleik voru í þeim dúr að við eigum skilið að vera á botninum,“ sagði Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs, eftir tapið gegn Fylki í Lautinni í kvöld. Hann virkaði vonlítill þrátt fyrir að vera ekki búinn að kasta inn handklæðinu.

„Við fengum lífsmark og menn virtust taka við sér og náðu sem betur fer að laga stöðuna fyrir hálfleik. Það var smá von um að við gætum gert eitthvað í seinni hálfleik en svo sjáum við þessi mörk sem koma og gera út af við okkur.

„Við reynum að klára þetta mót með höfuðið uppi og á meðan það er möguleiki samkvæmt tölfræðinni þá höldum við áfram en það verður niðurstaðan að það dugir ekki þá bítum við í það súra epli og reynum að rísa upp aftur.

„Það gefur augað leið að þegar þú færð á þig svona mörk þá fer flest allt úrskeiðis. Það sem lagt er upp með fer út um gluggann eftir 20 mínútur. Þetta var hvorki betri eða verri frammistaða í mörgum þessum leikjum sem við höfum sótt í Reykjavík. Við höfum gert okkur þetta svo erfitt fyrir með því að þurfa að þrífa upp eftir okkur. Það er þannig að þeir sem eru neðstir í töflunni í dag eru á réttum stað miðað við frammistöðuna í leikjunum.

„Það er oftast þannig að einstaklingsmistök skapa mörk. Ég tek ekkert af Fylkisliðinu sem spilaði fínan bolta en við gerðum þeim ekki erfitt fyrir að koma þessum mörkum inn. Það er okkar saga að fá á sig mark yfir markmanninn frá miðju. Týpískt.

„Það er allt liðið og þjálfararnir sem bera ábyrgð á þessu. Ef ég reikna rétt er tölfræðilegur möguleiki ef við vinnum alla leiki sem eftir eru en þá þurfum við heldur betur að stíga upp á tærnar. Við töpuðum klárlega fyrir betra liði í kvöld. Ég hefði viljað að þeir hefðu þurft að hafa meira fyrir þessum mörkum,“ sagði Páll Viðar sem segir það ekki nýtt að það sé heitt undir honum.

„Sætið er búið að vera heitt síðan ég fór í það held ég. Það er bara eðlilegt. Ég get alveg lofað því að ég gefst ekki upp. Ef ég fell með liðið ber ég ábyrgð á því og við reynum svo að rísa upp aftur Þórsararnir hvort sem ég verð þjálfari eða ekki. Þannig er staðan og við reynum að klára þetta mót með sæmd.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×