Íslenski boltinn

George Best á kvennaklósettinu á Litlu kaffistofunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Litla kaffistofan er heill knattspyrnuheimur útaf fyrir sig. Það er hæstráðandi Stefán Guðmundsson sem hefur komið upp hreint ótrúlegu safni í máli og myndum. Guðjón Guðmundsson heimsótti Litlu kaffistofuna í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

„Við eigum alveg efni frá því að það var spilað fótbolta á Íslandi árið 1911. Íslandsmótið byrjar 1912 og við eigum þó nokkuð mikið af sögunni frá þeim degi," sagði Stefán Guðmundsson í samtali við Gaupa.

Í loftinu við afgreiðsluborðið er reimaður bolti og fótboltaskór sem eru bæði með stáltá og járnaðir. Það er af sem áður var.

Á kaffistofunni er að finna stiklur úr íslenskri knattspyrnusögu svo sem eins og fyrsta sjálfsmarkið í landsleik og fyrsta dómarann og allt þar á milli.

„Ég byrjaði sjálfur að klippa út úr blöðum árið 1956 og ég hef líka átt mjög góða vini sem hafa gefið mér mikið. Friðþjófur Helgason og Helgi Daníelsson, pabbi hans, eiga síðan stærstan heiðurinn af þessu öllu," sagði Stefán Guðmundsson.

Það er allt rýmið nýtt á Litlu Kaffisofunni og myndir upp um alla veggi. Þegar menn bregða sér á salernið þá sleppa menn ekki.

Konur frá Manchester eru sérstaklega ánægðar með kvennaklósettið. „Þær eru mjög ánægðar með að sjá George Best upp á vegg en hann er jafnaldri minn. Ég var aldrei eins góður í fótbolta og hann. Þær komu hingað enskar hefðarfrúr og þær voru ánægðar með að sjá hann," sagði Stefán.

Það er hægt að sjá allt innslagið frá Guðjóni Guðmundssyni með því að smella á myndbandið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×