Skoðun

Eru bandamenn íslenskrar verslunar loks í sjónmáli?

Margrét Kristmannsdóttir skrifar
Í sjónvarpsfréttum RÚV á þriðjudagskvöld var viðtal við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra þar sem hann sagði það vera algjörlega óásættanlegt fyrir íslenska verslun að sitja uppi með tvítollun og mjög háan virðisaukaskatt ofan á þá tolla – enda gæti verslunin aldrei orðið samkeppnishæf við þessar aðstæður. Bætti hann við að endurskoðun stæði til á virðisaukaskattskerfinu sem hefði þegar verið kynnt í ríkisstjórn og yrði í framhaldinu sett á fót verkefnisstjórn í að endurskoða stöðuna.

Þrátt fyrir miklar annir þessa dagana hljóta allir verslunareigendur á Íslandi að hafa hoppað hæð sína af gleði við þessa frétt. Því ef satt reynist gæti verið í höfn eitt helsta baráttumál íslenskrar verslunar og jafnframt í sjónmáli ein mesta kjarabót fyrir íslensk heimili.

Alhæfing

Íslenskri verslun er oft legið á hálsi fyrir að vera óhagkvæm og m.a. horft til þess að hér á landi er verslunin rekin í mörgum fermetrum. En í 320.000 manna samfélagi og þegar höfðatölu er beitt verðum við Íslendingar oft „heimsmeistarar“ eða „skúrkar“. Það á hins vegar ekki einungis við þegar höfðatölureglunni er beint að versluninni.

Alhæfing um óhagkvæmni er hins vegar verst og illt fyrir verslunina að sitja undir. Það er ekki spurning að sumar verslanir eru reknar í of mörgum fermetrum, en aðrar ekki. Þar sem óhagkvæmni ríkir myndast hins vegar líka tækifæri – fyrir nýja aðila að koma inn með hagkvæmari rekstur og skáka þeim sem fyrir eru. Um það eru mýmörg dæmi í íslenskri verslun – sem betur fer.

Í verslun eins og í öðrum atvinnugreinum starfa án efa einstaklingar sem gætu betur varið kröftum sínum í annað. En heilt yfir stendur þessi atvinnugrein sig gríðarlega vel á þeim örmarkaði sem Ísland er.

Ef í sjónmáli eru síðan langþráðar breytingar er snúa að ósanngjörnum vörugjöldum, tollum og virðisaukaskatti er framtíð íslenskrar verslunar björt.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×