Skoðun

Enn einn vafningur ríkis­stjórnarinnar

Oddný G. Harðardóttir skrifar

Fjármála- og efnahagsráðherra sagði í hádegisfréttum RÚV á sunnudaginn að meðal breytingartillagna við fjárlagafrumvarpið væri að skera niður þróunaraðstoð, barnabætur og vaxtabætur. Það sé nauðsynlegt að gera til að mæta vanda í heilbrigðiskerfinu.

Erum við raunverulega í svo miklum vanda að einstæðir foreldrar, barnafólk og fátækustu ríki heims þurfi að taka á sig auknar byrðar til að mæta rekstrarvanda heilbrigðiskerfisins?

Lítum á heildarmyndina:

1. Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar var að lækka veiðigjald til útgerðarmanna um 6,4 milljarða króna á árinu 2014 og lækka neysluskatt sem erlendir ferðamenn greiða að mestu um 1,5 milljarða króna. Samtals dragast tekjur ríkisins saman um 7,9 milljarða vegna þessara forgangsverka ríkisstjórnarinnar.



2. Fyrri ríkisstjórn hafði stöðvað niðurskurð í rekstri heilbrigðisstofnana og vegna brýnnar þarfar bætt við umtalsverðum fjárhæðum til tækjakaupa og til geðheilbrigðismála.



3. Hin nýja ríkisstjórn hóf hins vegar niðurskurð í rekstri heilbrigðisstofnana að nýju eftir að hafa gefið útvegsmönnum og erlendum ferðamönnum umtalsverðan afslátt á opinberum gjöldum.



4. Nú hefur nýja ríkisstjórnin áttað sig á því að nauðsynlegt muni vera að draga úr fyrirhuguðum niðurskurði í rekstri heilbrigðisstofnana og bæta þurfi við fjármagni vegna endurnýjunar tækjakosts sem hafinn var í tíð fyrri ríkisstjórnar.



5. Til þess að þetta sé mögulegt, segir fjármálaráðherra að nú verði að leita í vasa einstæðra foreldra, barnafólks, þeirra sem njóta tekjutengdra vaxtabóta og fátækustu ríkja heims.



Eftir þessa snúninga ríkisstjórnarinnar er niðurstaðan sú að það eru þeir sem eru í mestum fjárhagsvanda sem greiða fyrir afslátt til útgerðarmanna og erlendra ferðamanna. Afganginn á fólk í fátækustu ríkjum heims að taka á sig.



Stefna ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er skýr í þessu sem öðru. Auka skal ójöfnuð í samfélaginu og flytja markvisst fjármuni frá þeim sem minnst hafa til þeirra sem hafa nóg fyrir. Það mun Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands aldrei sætta sig við.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×