Erlent

Hvetja fólk til að borða fleiri skordýr

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Steiktar engisprettur eins og sjást á myndinni þykja herramannsmatur sums staðar.
Steiktar engisprettur eins og sjást á myndinni þykja herramannsmatur sums staðar. nordicphotos/getty
Ef fleiri jarðarbúar borðuðu skordýr myndi draga úr hungri og mengun auk þess sem næring fólks yrði betri. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem kom út í gær.

Um tveir milljarðar manna borða nú þegar skordýr í einhverjum mæli, að því er fram kemur í skýrslunni. Samt sem áður eru þau vannýtt auðlind í fæðu bæði manna og dýra.

Skordýr eru „einstaklega dugleg“ við að umbreyta fæðu sinni í kjöt sem hentar til átu. Að meðaltali geta þau breytt tveimur kílóum af fæðu í eitt kíló af kjöti. Til samanburðar þurfa nautgripir um átta kíló af fæðu. Þá losa flest skordýr minna af skaðlegum gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið auk þess sem þau nærast á ýmiss konar úrgangi.

Ræktun á skordýrum er ein margra leiða sem hægt væri að fara til að auka fæðuöryggi, segir í skýrslunni. „Skordýr eru alls staðar og þau fjölga sér hratt. Þau hafa hágæðaprótín og næringarefni í samanburði við kjöt og fisk og eru sérstaklega mikilvæg sem bætiefni fyrir vannærð börn.“ Að auki geta skordýr innihaldið meðal annars kopar, járn, magnesín, fosfór og sink. Þau eru líka trefjarík.

Höfundar skýrslunnar virðast vera meðvitaðir um að mörgum, ekki síst fólki á Vesturlöndum, þyki heldur ógeðfellt að borða skordýr. Skýrsluhöfundar vilja að matvælaiðnaðurinn hjálpi til við að gera skordýr að fýsilegri kosti með því að hafa þau í uppskriftum og bæta þeim við matseðla á veitingastöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×