Erlent

Siglt í fyrsta sinn að veturlagi með gas

GB skrifar
Ferðalagið hefur verið mikið ævintýri fyrir áhöfnina á Ob River.	mynd/dynagas
Ferðalagið hefur verið mikið ævintýri fyrir áhöfnina á Ob River. mynd/dynagas
Flutningaskipið Ob River er þessa dagana á siglingu frá Noregi norður fyrir Rússland og til Japans með fullfermi af jarðgasi.

Þetta er í fyrsta sinn sem skipi af þessu tagi er siglt yfir Norður-Íshafið. Frá þessu er skýrt á fréttavef breska útvarpsins BBC.

Siglingin hefur verið í undirbúningi í eitt ár. Siglingatíminn er tuttugu dögum styttri en þegar farin er venjuleg leið frá Noregi til Japans, en með því sparast um 40 prósent af venjulegum eldsneytiskostnaði við flutninga af þessu tagi.

Siglt var úr höfn í Hammerfest í Noregi þann 7. nóvember og reiknað með að skipið komi á áfangastað í Japan í byrjun desember. Samkvæmt frásögninni á fréttavef BBC hefur ferðalagið verið töluvert ævintýri fyrir skipshöfnina.

Það er hlýnun loftslags jarðar sem gerir þessa siglingu mögulega, því allt fram á allra síðustu ár hefur hafísinn lokað þessari leið allt árið. Með sérútbúnum skipum er hægt að fara þessa leið æ lengur fram á vetur.

Skipið er smíðað árið 2007, með 40 manna áhöfn og getur tekið 150 þúsund rúmmetra af gasi. Það er í eigu gríska skipafélagsins Dynagas, en í leigu rússneska orkufyrirtækisins Gazprom. Rússneskur kjarnorkuknúinn ísbrjótur hefur fylgt skipinu, en skipið sjálft er sérstaklega styrkt til siglinga á hafísslóðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×