Skoðun

Besti heilbrigðisráðherrann

Ólafur Hauksson skrifar

Ég hef síðustu tvo áratugina unnið fyrir fjölmarga einstaklinga og fyrirtæki sem hafa átt í samskiptum við ráðuneyti og ráðherra. Oftast nær eru frásagnir af slíkum samskiptum daprar. Fólk fær ekki svör eða er dregið á asnaeyrunum fram og til baka. Ákvörðunarfælni er gegnumgangandi.

Auðvitað skyldi maður ekki alhæfa um skilvirkni ráðuneyta. Vafalítið fá einhverjir ágæta þjónustu. En það hefur vakið athygli mína, að af þeim mörgu sem ég þekki sem hafa átt samskipti við heilbrigðisráðuneytið, sker eitt tímabil sig úr í þeirra augum. Það er þegar Guðlaugur Þór Þórðarson var heilbrigðisráðherra, á árunum 2007 til 2009.

Án undantekninga talar fólk um að ráðuneytið hafi gjörbreyst með tilkomu Guðlaugs. Allt í einu var hægt að fá viðtal við ráðherrann án þess að þurfa að liggja vælandi í ráðuneytinu mánuðum saman. Ef hann hafði ekki tíma, þá fékk fólk samt svör. Ákvarðanir voru teknar. Dragbítar í stjórnsýslunni voru settir til hliðar og ráðuneytið blómstraði. Málum var fylgt eftir. Á þessum tæpu tveimur árum keyrði Guðlaugur Þór jafnframt fjölmörg þjóðþrifamál af stað.

Sjaldan hefur jafn drífandi maður og Guðlaugur stýrt heilbrigðisráðuneytinu. Reyndar hef ég einnig heyrt vel látið af þeim tíma sem Siv Friðleifsdóttir hélt þar um stjórntaumana. Hún tók ákvarðanir og lét hlutina ganga. Því miður hefur Siv ákveðið að yfirgefa stjórnmálin. Við erum hins vegar svo heppin að Guðlaugur Þór gefur kost á sér áfram. Ekki þarf að hafa mörg orð um hvernig best verður tryggt að kraftar hans nýtist.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×